Stök frétt

Mynd: Unsplash

Að ýmsu er að huga þegar farið er að heiman í frí. Eitt af því er ísskápurinn.  

Hér eru nokkur góð ráð til þess að undirbúa brottför og sporna við matarsóun (og slæmri lykt við heimkomu):

  • Vöndum innkaup síðustu dagana. Fyllum ekki ísskápinn af ferskvöru rétt áður en lagt er af stað í frí. Reynum að saxa á það sem til er og höldum innkaupum í lágmarki
  • Gefum ferskvöru. Ef mikið er til af ferskvöru er um að gera að koma henni á góðan stað; til ættingja, vina eða nágranna sem munu geta nýtt sér matinn áður en hann skemmist
  • Frystum. Kannski er eitthvað í eldhúsinu sem mun nýtast þegar heim er komið ef við frystum matinn? Niðurskornir ávextir geta til dæmis nýst í drykki úr blandaranum eða í spennandi sultur. Munum líka að mjólkurvörur frystast vel; mjólk, smjör, rjómi og ostur sem dæmi. Og auðvitað brauðið!
  • Nýtum í nesti. Tökum með okkur mat úr ísskápnum í ferðalagið, hvort sem það er í nestistöskuna til neyslu samdægurs eða til lengri tíma í kæliboxið

Á pökkunarlistann

Ýmsar góðar venjur úr hversdagslífinu riðlast gjarnan þegar farið er í frí. Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að pakka niður í töskuna áður en lagt er í hann:

  • Fjölnota vatnsbrúsi
  • Fjölnota kaffimál
  • Fjölnota borðbúnaður
  • Fjölnota poki fyrir búðarferðir

Góða ferð! 

Meira um matarsóun á heimasíðu Saman gegn sóun

Meira um grænan lífstíl á graenn.is

Mynd: Munum eftir að pakka fjölnota borðbúnaði fyrir ferðalagið / Shutterstock.