Stök frétt

Myndin er fengin úr gögnum frá Orkugerðinni


Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að breytingu á starfsleyfi Orkugerðarinnar ehf. Breytingin felst í því að árleg afkastageta er aukin úr 7.000 tonnum af hráefni í 14.000 tonn. Orkugerðin ehf. er verksmiðja í Flóanum sem tekur við lífrænum afurðum og framleiðir úr þeim fitu og kjötmjöl og þannig eru sköpuð verðmæti úr afurðum sem ella þyrfti að urða.

Málið um aukningu á afkastagetu fór í fyrirspurn um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun. Í umsögn Umhverfisstofnunar um framkvæmdina taldi Umhverfisstofnun að möguleg neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar séu fyrst og fremst lykt. Skipulagsstofnun tók þann 17. mars 2022 afstöðu til matsskyldu á framkvæmdinni og voru taldar litlar líkur á umfangsmiklum eða langvarandi neikvæðum áhrifum vegna starfsemi Orkugerðarinnar. Þar kom fram að Orkugerðin er að bæta ósónbúnaði við mengunarvarnabúnað sinn til að vinna gegn lyktarmengun í útblæstri. Annað sem verulegu máli skiptir til að vinna gegn lyktaráhrifum er að sem stystur tími líði frá móttöku hráefnis þar til vinnslu fitu og kjötmjöls lýkur.

Upphaflegt starfsleyfi var gefið út í desember 2019 og er starfsleyfið því frekar nýtt og var ekki talin ástæða til þess að gera umfangsmiklar breytingar á starfsleyfinu.

Tillagan ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 14. júní til og með 15. júlí 2022. Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is) merktar UST202204-067. Umsagnir verða birtar við útgáfu nema annars sé óskað. Frestur til að skila umsögnum er til og með 15. júlí 2022.

Orkugerðin - umsókn um breytingu
Orkugerðin - breytingartillaga