Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun, Landhelgisgæsla Íslands og Samgöngustofa héldu árlega mengunarvarnaæfingu í síðustu viku (fimmtudaginn 2. júní) og var æfingin að þessu sinni haldin í samstarfi við Vestmannaeyjahöfn. Fulltrúar frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja og heilbrigðiseftirliti Suðurlands tóku einnig þátt í æfingunni og rannsóknarskipið Friðrik Jesson. 

Markmið mengunarvarnaæfingarinnar var að æfa samskipti á milli viðbragðsaðila og þjálfa starfsmenn viðkomandi aðila í notkun mengunarvarnabúnaðar, annars vegar búnaðar sem er eigu Vestmannaeyjahafnar og hins vegar mengunarvarnabúnaðar sem er um borð í varðskipinu Þór. Æft var með búnað hafnarinnar í innri höfn þar sem mengunarvarnagirðing var dregin í kringum skip í höfninni og olíuupptökutæki (skimmer) sett út innan girðingarinnar. Varðskipið Þór var staðsett í ytri höfn og var þar æft með búnað varðskipsins með aðstoð rannsóknarskipsins Friðriks Jessons. 

Æfingar sem þessar eru mikilvægar fyrir þjálfun starfsmanna þannig að viðbrögð við bráðamengun séu rétt og fumlaus, en í þeim gefst einnig tækifæri til að meta ástand mengunarvarnabúnaðar og stuðla þannig að því að búnaðurinn sé í góðu standi þegar bregðast þarf við mengunaróhappi.