Stök frétt

Alþjóðlegur dagur hafsins er í dag en hann er haldinn árlega þann 8. júní. Yfirskrift dagsins í ár er „Endurreisn: Sameiginlegar aðgerðir fyrir hafið“ og er nú sjónum beint að samfélögunum, hugmyndum og lausnum sem vinna saman að því að vernda og endurreisa hafið og allt sem það heldur uppi. 

Umhverfisstofnun sinnir ýmsum verkefnum til að vernda hafið og lífríki þess og leggur áherslu á að miðla upplýsingum til almennings um mengunarástand sjávar. Á undanförnum árum hefur stofnunin tekið þátt í hátíð hafsins og vakið þar meðal annars athygli á plasti í hafi.  

Í tilefni sjómannadagsins nú í ár býður Umhverfisstofnun til sýningar á Grandagarði þar sem hægt er að fræðast um olíumengun í sjó og viðbrögð til að lágmarka áhrif olíumengunar á lífríki. Mengun í hafi verður oft á tíðum skyndilega og því er mikilvægt að grípa tafarlaust til aðgerða. Á sýningunni verður sýnt myndband frá því þegar flutningaskipið Wilson Muuga strandaði við Hvalsnes á Reykjanesi í desember 2006 og aðgerðum viðbragðsaðila. Einnig verður til sýnis búnaður sem notaður er til að hreinsa upp olíumengun.

Frekari upplýsingar má finna hér á vef Reykjavíkurborgar