Stök frétt

Í maí sl. voru 20 ár frá fullgildingu Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni á Íslandi. Samningurinn var mikilvægur liður í samræmdum alþjóðlegum aðgerðum gagnvart þrávirkum lífrænum efnum. Það þótti ljóst að ríkin gætu ekki leyst vandann hvert fyrir sig heldur þyrfti samstöðu vegna eiginleika efnanna til að geta ferðast langar vegalengdir. Mikilvægi samningsins fyrir Íslands felst ekki síst í því að hætta er á að þrávirk efni safnist upp á norðlægum slóðum.  

Hvað eru þrávirk lífræn efni?

Í stuttu máli eiga þessi efni það sameiginlegt að brotna hægt eða aldrei niður í náttúrunni, geta ferðast langar vegalengdir um heim allan og hafa skaðleg áhrif á heilsu manna eða umhverfið. Efnin geta safnast upp í vefjum lífvera (einkum fituvefjum) og magnast upp fæðukeðjuna.

Áhrifin á heilsu okkar geta m.a. verið:

  • Krabbamein
  • Fæðingargallar
  • Truflun á frjósemi
  • Truflun á ónæmiskerfinu
  • Skemmdir á mið- og útlæga taugakerfinu
  • Aukið næmi fyrir sjúkdómum

Mikilvægi samningsins

Samningurinn er afar mikilvægur fyrir lönd á norðlægum slóðum eins og Ísland því við losun þrávirkra efna út í umhverfið er hætta á að þau safnist upp fjarri uppruna sínum á kaldari svæðum. Þetta gerist einkum vegna haf- og loftstrauma sem bera efnin til kaldari svæða frá heitari svæðum.

Þegar samningurinn var gerður var samþykkt að takmarka eða banna tólf efni. Þau eru nú orðin þrjátíu talsins og til skoðunar að bæta öðrum sex við. 

Mikilvægt þykir að takast á við rót vandans og því var ákveðið að bönn og takmarkanir tækju ekki aðeins til framleiðslu heldur er einnig fjallað um notkun, alþjóðaviðskipti, losun og geymslu á þrávirkum lífrænum efnum í samningnum. 

Hvað getum við gert?

Markmið samningsins er að vernda heilsu manna og umhverfis. Því er mikilvægt að stuðla að sjálfbærri og öruggri efnanotkun. Það skiptir miklu máli að vanda valið á þeim efnum sem við getum komist í snertingu við. Verum meðvituð um efnin í daglegu lífi því margt er hægt að gera til að minnka snertingu okkar við óæskileg efni. 

Hægt er að byrja á þessum atriðum:

  • Minnka neyslu  
  • Velja umhverfisvottaðar vörur, t.d. Svaninn og Evrópublómið
  • Velja textíl merkt OEKO-TEX
  • Þrífa og/eða lofta um nýja hluti eins og t.d. raftæki, föt, leikföng og húsgögn
  • Lofta reglulega út á heimilinu
  • Ryksuga að lágmarki vikulega

Skyldur vegna samningsins

Skrifstofa samningsins sér um að safna saman upplýsingum frá aðildarríkjunum til að miðla áfram bæði á alþjóðavettvangi og til að upplýsa ríkin um stöðu mála. 

Samningurinn fjallar einnig um skyldu ríkjanna til að upplýsa og fræða almenning, rannsóknir, þróun og eftirlit og mat á skilvirkni samningsins. 

Jafnframt er gerð sú krafa að iðnríki veiti þróunarríkjum tæknilega og fjárhagslega aðstoð þar sem uppsprettur efnanna koma mikið til þaðan. Fjárhagsleg og tæknileg flækjustig koma upp þegar verið er að skipta yfir í staðgöngulausnir eða nýja tækni. 

 

Tengt efni: