Stök frétt

För eftir akstur mótorkrosshjóla utan vega á Reykjanesskaga

Á dögunum voru til umfjöllunar á mbl.is  náttúruspjöll vegna aksturs utan vega í mosavöxnu hrauni við Sveifluháls. Í fréttinni kom fram að förin hafi líklegast verið eftir mótorkrosshjól og að í nágrenni svæðisins væri mótorkrossbraut.

Umhverfisstofnun vill nýta tækifærið og leiðrétta þann misskilning. Engin æfinga- eða keppnisbraut er í nágrenni Vigdísarvalla eða Kleifarvatns.

Stofnunin er hins vegar meðvituð um að ólöglegur akstur  torfærutækja utan vega á þessu svæði er mjög algengur, þá sér í lagi mótorkrosshjóla. Víða má sjá för eftir akstur mótorkrosshjóla utan vega, m.a. um fjallgarðinn vestan Kleifarvatns og í hraunbreiðum við Vigdísarvallaleið. Aksturinn veldur skemmdum á mosabreiðum og hefur áhrif á landslagið í heild sinni.

Sumar leiðirnar eru það mikið eknar að skilja mætti sem svo að um braut eða jafnvel veg sé að ræða. Öll umferð vélknúinna ökutækja utan Vigdísavallarleiðar (vegur 428) og Krísuvíkurvegar (vegur 42) um þessar slóðir telst hins vegar vera akstur utan vega.

Almenningur hefur verið duglegur við að tilkynna atvik til stofnunarinnar undanfarin ár, ásamt því að starfsmenn stofnunarinnar hafa einnig orðið varir við ítrekaðan akstur á svæðinu. 

Akstur utan vega er óheimill samkvæmt náttúruverndarlögum.


Loftmynd af Kleifarvatni og Sveifluhálsi frá Landmælingum Íslands