Stök frétt

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði úttekt á opinberu eftirliti með plöntuverndarvörum, efnaleifum og sjálfbærri notkun plöntuverndarvara á Íslandi í nóvember 2021. Niðurstöðurnar sýndu að Ísland hefur innleitt viðeigandi Evrópulöggjöf og sett upp eftirlitskerfi sem mætir hluta af kröfum löggjafarinnar en styrkja þarf ákveðin atriði í framkvæmd eftirlits.

Í niðurstöðum ESA kemur m.a. fram að eftirlitskerfi fyrir markaðssetningu plöntuverndarvara sé fullnægjandi og þjálfunar- og vottunarkerfi fyrir einstaklinga sem nota plöntuverndarvörur í atvinnuskyni. Einnig sé til staðar eftirlitskerfi fyrir efnaleifar plöntuverndarvara við ræktun og geymslu matvæla.

Niðurstöðurnar sýna að bæta þarf eftirlit með notkun plöntuverndarvara. Bætt eftirlit er nauðsynlegt til þess að tryggja að notkun plöntuverndarvara sé örugg og í samræmi við gildandi reglur. Þannig er hægt að draga úr áhættu fyrir heilsu manna og umhverfi. 

Einnig þarf að endurskoða hlutverk stjórnvalda sem koma að eftirliti með notkun plöntuverndarvara svo hægt sé að koma á fót skilvirku eftirlitskerfi um notkun.  

Við eftirlit með efnaleifum plöntuverndarvara við ræktun og geymslu matvæla þarf að efla sýnatökubúnað. Einnig þarf að bæta verklag við sýnatökur og viðbrögð þegar frávik koma fram til þess að auka skilvirkni og áhrif eftirlitskerfisins. 

Úttektin fór fram dagana 15. til 24. nóvember 2021.

Niðurstöður eftirlitsins eru settar fram í lokaskýrslu og með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá stjórnvöldum og eftirlitsaðilum hérlendis. 

Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.

 

Tengt efni: