Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 28. apríl afhenti Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins, Gísla Sigmundssyni hjá Auðnutré ehf. Svansleyfi fyrir vottun endurbættra bygginga fyrir Þingholtsstræti 35 í Reykjavík. Um er að ræða fyrsta íbúðarhúsið sem hlýtur Svansvottun fyrir endurbætur en húsið er á þremur hæðum og stendur í einum elsta hluta borgarinnar.

Gísli festi kaup á húsinu í september 2020 með það að markmiði að fá Svansvottun fyrir endurbæturnar. Mikil áhersla var lögð á að sýna vel frá ferlinu frá upphafi til enda og hélt Gísli meðal annars úti virkri facebook síðu þar sem hann birti viðtöl við verktaka og myndir af ferlinu.

Við afhendingu vottunarinnar í dag sagði Elva Rakel: "Það er virkilega gaman að segja frá því að þetta er fyrsta íbúðarhúsið sem hlýtur Svansvottun samkvæmt endurbótaviðmiðunum en Ísland er sérstaklega framarlega þegar kemur að Svansvottuðum endurbótum þar sem flest slík verkefni eru hér á landi. Svansvottaðar endurbætur eru ákveðinn gæðastimpill þar sem tryggt hefur verið að byggingarefni innihaldi sem minnst eiturefni ásamt því að rakavarnir og fleira eru tryggðar."

Gísli Sigmundsson: "Þegar ég fór að skoða Svansvottun betur sá ég að þær byggingarvörur sem mátti nota voru nokkurn vegin þær vörur sem ég var nú þegar að nota sem ýtti mér út í það að fara út í ferlið. Framkvæmdin sjálf var ekki flóknari en hefðbundnar byggingarframkvæmdir og samskipti við helstu aðila sem komu að verkefninu gengu vel. Það var sérstaklega ánægjulegt hversu vel samstarfið við kaupendur hússins gekk en eftir að þau festu kaup á það unnum við náið saman að því að innrétta húsið."

Mikill umhverfislegur ávinningur
Svansvottunin tryggir að umhverfislegur ávinningur af verkefninu er umtalsverður en í Svansvottuðum endurbótaverkefnum er mikil áhersla lögð á að nýta það sem hægt er. Húsið var í lélegu ásigkomulagi þegar framkvæmdir hófust en burðarvirki var nýtt áfram, ásamt gólfefni í forstofu og stiga innandyra. 

Á Þingholtsstrætinu voru til að mynda framkvæmdar úttektir til að tryggja gæði endurbótanna, réttan farveg úrgangs og fleira. Gerð var rakaúttekt og úttekt á spilliefnum. Þá gerir Svanurinn einnig ákveðnar gæðakröfur sem snúa meðal annars að viðhaldi og vinnuferlum en í Þingholtsstrætinu var lögð áhersla á að lágmarka framtíðarþörf á viðhaldi til að mynda með vali á viðhaldsminni byggingarefnum. 

Aukið framboð á vottuðum vörum
Í Svansvottun felst að allar bygginga- og efnavörur sem notaðar eru við framkvæmdirnar séu umhverfisvottaðar. Vörurnar þurfa að uppfylla strangar kröfur um innihald skaðlegra efna. 
Að mati Umhverfisstofnunar kom skemmtilega á óvart hversu mikið úrval og þekking er á umhverfisvottuðum vörum. Birgjar sem selja bygginga- og efnavöru eru alla jafna mjög meðvitaðir um þær kröfur sem liggja að baki Svansvottun. Þeir hafa aukið bæði framboð á efnum og þekkingu sem auðveldar byggingaferlið  um munar. 

Aukið framboð af umhverfisvottuðum íbúðum á markaði 
Mikil aukning hefur verið í umsóknum um Svansvottun byggingaframkvæmda. 
Sex verkefni hafa nú þegar hlotið vottun og mörg önnur í farvatninu. Það lítur því út fyrir að að í framtíðinni verði aukið framboð af Svansvottuðum íbúðum fyrir almenning. Svansvottun bygginga er ákveðinn gæðastimpill og tryggir góða innivist, rakavarnir og fleira sem skiptir máli fyrir umhverfið og heilsu fólks. 

Nánar má lesa um afhendingu vottunarinnar hér