Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið seinni hluta eftirlitsverkefnis með sæfivörum á markaði þar sem farið var í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja rotvarnarefni fyrir yfirborðsfilmu, viðarvarnarefni, nagdýraeitur, skordýraeitur og gróðurhindrandi vörur hér á landi. Fyrri hluti verkefnisins fór fram árið 2018. Markmiðið var að skoða hvort að sæfivörur uppfylltu skilyrði um markaðsleyfi og hvort merkingar þeirra væru í samræmi við gildandi reglur.

Almennt gildir að sæfivara þurfi markaðsleyfi svo heimilt sé að markaðssetja hana á Íslandi en forsenda útgáfu markaðsleyfis er að virk innihaldsefni hennar hafi verið samþykkt í kjölfar áhættumats. Áhættumati allra virkra efna til notkunar í sæfivörur er ekki lokið en áætlað er að þeirri vinnu muni ljúka við árslok 2024. Þar sem áhættumati er enn ekki lokið fyrir mörg virk efni eru margar sæfivörur á markaði sem þurfa ekki markaðsleyfi eins og er.

Farið var í eftirlit hjá fimm fyrirtækjum og fundust alls 55 sæfivörur, sem féllu undir umfang verkefnisins, frá sex birgjum. Eitt eða fleiri frávik fundust við 41 vöru, sem gerir tíðni frávika 74,5%. Aðeins fundust tvær vörur sem uppfylltu ekki skilyrði um markaðsleyfi og reyndist önnur þeirra flokkuð í rangan vöruflokk svo markaðssetning hennar var ekki ólögleg. Markaðssetning hinnar vörunnar var stöðvuð tímabundið eða þar til varan fær markaðsleyfi fyrir íslenskan markað. Til samanburðar fundust fjórar vörur sem uppfylltu ekki skilyrði um markaðsleyfi í fyrri hluta verkefnisins.

Frávik vegna ófullnægjandi merkinga voru gerð við 39 vörur, ýmist frá einni eða fleiri greinum Evrópureglugerðar nr. 1272/2008 (CLP). Flest frávikin voru vegna hættusetninga, varnaðarsetninga og viðvörunarorðs á íslensku á umbúðum, sem vantaði alfarið eða voru ekki í samræmi við öryggisblað eða staðlaðar setningar, en skiptingu frávika eftir einstökum greinum CLP reglugerðarinnar má sjá á myndinni hér að neðan. Úrbætur hafa verið staðfestar og eftirlitsmáli lokað hjá fimm birgjum fyrir samtals 39 vörur. Umhverfisstofnun bíður eftir fullnægjandi úrbótum frá einum birgja.


Mynd: Samtals 39 vörur voru með frávik vegna ófullnægjandi merkinga ýmist frá einni grein CLP reglugerðarinnar eða fleirum. Myndin sýnir skiptingu frávikanna eftir einstaka greinum.

Nánar má lesa um verkefnið í samantekt þess á vefsíðu Umhverfisstofnunar.