Stök frétt

Mynd: Starfsfólk stofnana og fyrirtækja í ríkisrekstri fagnar Grænum skrefum í desember.

Stofnanir og fyrirtæki í ríkiseigu hafa tekið sjötíu Græn skref í desembermánuði. Það eru tvöfalt fleiri skref en í meðalmánuði. Þau keppast nú við að ljúka Grænu skrefunum fyrir lok árs með því skila inn loftslagsstefnu til yfirlestrar. 

Frábær árangur á árinu 

Hluti af aðgerðaráætlun loftslagsstefnu Stjórnarráðsins felst í því að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin og ljúki loftslagsstefnugerð sinni á þessu ári. „Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá hversu mikið kapp starfsfólk ríkisstofnannna hefur lagt á að ná þessu markmiði“ segir Jóhannes B. Urbancic Tómasson, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis.  

Umhverfisstofnun hefur lagt áherslu á að leiðbeina og hvetja stofnanir og fyrirtæki í ríkiseigu til að klára Grænu skrefin á þessu ári. Aldrei hafa fleiri stofnanir skráð sig í Grænu skrefin og í ár, eða 39 stofnanir.  

Um hundrað loftslagsstefnur í vinnslu 

Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri miðar að því að minnka umhverfisáhrif af starfsemi ríkisstofnana, t.a.m. með því að draga úr samgöngum og skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Mikil áhersla er lögð á minni úrgangsmyndum með minni innkaupum og aukinni flokkun til endurvinnslu, auk þess sem horft er til matarsóunar og kolefnisspors matvæla almennt.  

Grænu skrefin eru fimm talsins, og undir hverju og einu þeirra eru 30-40 aðgerðir sem starfsfólk Umhverfisstofnunar fylgir eftir að séu framkvæmdar. Samhliða skrefunum setja ríkisaðilar sér loftslagsstefnu ásamt markmiðasetningu og aðgerðaráætlun, og skila inn grænu bókhaldi árlega til Umhverfisstofnunar. Nærri hundrað loftslagsstefnur hafa nú borist Umhverfisstofnun til yfirferðar. 

„Hvert einasta Grænt skref sem er stigið hefur áhrif og það er gaman að sjá kraftinn sem ríkisaðilar hafa sett í verkefnið á árinu. Eins og á við um loftslags- og umhverfismál almennt er verkefninu þó hvergi nærri lokið“ segir Jóhannes.

Umhverfisstofnun og starfsfólk Grænna skrefa hlakkar til áframhaldandi samvinnu á nýju ári.  

Heimasíða Grænna skrefa

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mynd: Jóhannes B. Urbancic Tómasson, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, afhendir starfsfólki úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fimmta Græna skrefið í desember 2021.