Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Mynd: N1

Umhverfisstofnun hefur gefið út fyrirmæli um úrbætur vegna umhverfistjóns á Hofsósi. Gert er ráð fyrir því að áhrif bensínmengunar frá eldsneytistanki N1 muni að öllum líkindum hverfa þegar hreinsunaraðgerðir hefjast. Búist er við að húsnæði verði íbúðarhæft fljótlega eftir að mótvægisaðgerðir verða framkvæmdar.

Tilskilin leyfi hafa nú fengist frá bæði Vegagerðinni og sveitarfélaginu Skagafirði og munu framkvæmdir því hefjast í byrjun janúar.  

Hefðbundin jarðvegsskipti ekki fýsileg 

Umhverfisstofnun hefur lagt ríka áherslu á að N1 ehf. geri rannsóknir á svæðinu. Um er að ræða rannsóknir á jarðvegi og innanhúslofti í þeim fasteignum sem hafa orðið fyrir áhrifum frá bensínlekanum. 

Niðurstöður rannsókna benda til þess að mengunin sé ekki bundin í jarðvegi. Hefðbundin jarðvegsskipti á svæðinu eru því ekki fýsilegur kostur. Slíkar aðgerðir fela í sér of mikið inngrip í vistkerfið á svæðinu og geta einnig haft slæm áhrif á lagnakerfi bæjarins og stöðugleika bygginga og vega á svæðinu.  

Þar sem mengunina er að finna í gasfasa í holrýmum jarðvegsins er mögulegt að framkvæma hreinsunaraðgerðir sem fela í sér minna inngrip. Undirþrýstingi er komið á í jarðveginum og gasið í holrýmunum sogað út og leitt í gegnum síu. Þannig verður leitast við að koma í veg fyrir bensínlykt á svæðinu. Verði vart við mengaðan jarðveg við framkvæmdir skal hann fjarlægður af svæðinu og sendur í meðhöndlun. 

Húsnæði í notkun  

Samhliða því að undirþrýstingur myndast í jarðvegi verður yfirþrýstingi komið á í þeim húsum sem orðið hafa fyrir áhrifum vegna bensínlekans. Yfirþrýstingurinn verður til þess að gasmengun á ekki greiða leið inn í húsin. Þau ættu því að verða íbúðar- og notkunarhæf fljótlega eftir að aðgerðir hefjast. 

Lágmarks rask af hreinsunarstarfi 

Stofnunin gerir ráð fyrir að hreinsunarstarf geti tekið allt að þrjú ár. Eftir að hreinsunaraðgerðir hefjast ætti rasks ekki að gæta, þar sem búnaðurinn er að mestu staðsettur neðanjarðar og veldur því ekki óþægindum fyrir bæjarbúa.

Frekari upplýsingar um málið veita Kristín Kröyer (kristin.kroyer@ust.is) og Frigg Thorlacius (friggt@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.