Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun og sveitarfélagið Þingeyjarsveit, kynna áform um friðlýsingu hellasvæðis í Þeistareykjahrauni sem náttúruvætti í samræmi við ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.  

Náttúrufræðistofnun Íslands metur hraunhella almennt sem fágætar náttúruminjar á heimsvísu og er verndargildi þeirra mjög hátt. Í hraunhellum eru margskonar viðkvæmar hraunmyndanir á borð við dropsteina og hraunstrá. Í Þeistareykjahrauni hafa fundist einhverjir heillegustu hraunhellar sem þekktir eru og búa þeir yfir einstökum fjölda dropsteina og hraunstráa. Hellarnir sem eru fágætir á heimsvísu hafa hátt vísindalegt og fagurfræðilegt gildi auk þess sem fræðslumöguleikar eru miklir, sé rétt að staðið. Vegna verndargildis hefur hellunum verið lokað skv. 25. gr. laga um náttúruvernd. 

Hraunhellar falla undir ákvæði sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga um náttúruvernd auk þess sem dropsteinar eru friðlýstir á landsvísu með auglýsingu nr. 120/1974. Með áformum um friðlýsingu hellanna og áhrifasvæðis þeirra er horft til þess að vernda hellana í til framtíðar auk þeirra náttúrufyrirbæra sem þar er að finna. Vernd hellanna er eingöngu tryggð með því að hellisop séu varin auk þess sem svæði á yfirborði hraunsins, þar sem hellarnir eru undir, þarfnast verndar við raski. 

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við afmörkun þá sem birt er á korti.

Áform þessi eru kynnt í samræmi við málsmeðferðarreglur 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna.  Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, Þingeyjarsveitar  og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að því búnu verða auglýst opinberlega og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu. 

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 24. janúar 2022. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila, verði þess óskað, í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012. 

Frekari upplýsingar veita Davíð Örvar Hansson (davidh@ust.is) og Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) eða í síma 591-2000.