Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Stefánssól (Papaver radicatum ssp. stefanssonii) er ýmist bleik eða hvít og er hana helst að finna á Vestfjörðum og norðurlandi vestra. Mynd: Hákon Ásgeirsson

Umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir auglýsingu um friðlýsingu æðplantna, mosa og fléttna  2. desember sl. Um er að ræða 47 tegundir æðplantna, 45 mosa og 62 fléttur sem eiga það allar sameiginlegt að vera fágætar á landsvísu. Markmið með friðuninni er að vernda og viðhalda þessum fágætu tegundum ásamt náttúrulegu gróðurfari og varðveita líffræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands. Þekktir fundarstaðir þessara tegunda æðplantna, mosa og fléttna eru fáir hér á landi og tegundirnar eru sjaldgæfar eða mjög sjaldgæfar, með takmarkaða útbreiðslu og eru á válista yfir tegundir í hættu á að hverfa úr náttúru Íslands. Friðunin hefur ekki áhrif á för fólks um vaxtarstaði friðaðra æðplantna, mosa og fléttna en bannað er að eyðileggja eða valda skaða á einstaklingum friðaðra tegunda.  

Á Íslandi eru fremur fáar villtar tegundir plantna miðað í öðrum löndum. Íslenska flóran telur um 490 tegundir æðplantna og er um helmingur þeirra algengar um allt land. Árið 1978 vor 31 tegund æðplantna friðlýstar hér á landi en fjölgar nú í 47. 

Þekktir mosar á Íslandi eru rúmlega 600 talsins. Þeir eru mjög áberandi í íslenskri náttúru, mun meira en víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Það eru ýmsir þættir sem mosar endurspegla eins og loftslag og síendurtekna myndun á nýju undirlagi, einkum hraunum.

Rúmlega 700 tegundir fléttna hafa fundist á Íslandi. Fléttur eru áberandi þar sem annar gróður á erfitt uppdráttar og hafa mikla aðlögunarhæfni. Hlutfall fléttna eykst til að mynda til fjalla og eru oft fyrstu landnemar á nýrunnum hraunum. 

Auglýsingu um friðlýsinguna má nálgast hér á heimasíðu Umhverfisstofnunar ásamt tegundalista. Nánari upplýsingar um tegundirnar má nálgast á  heimsíðu Náttúrufræðistofnun Íslands.