Stök frétt

Umhverfisstofnun og Blönduósbær vinna nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir fólkvanginn Hrútey. 

Hrútey í Blöndu var friðlýst sem fólkvangur árið 1975 með auglýsingu nr. 521/1975 og er 10,7 ha að flatarmáli. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja gangandi fólki frjálsa ferð um eyna og jafnframt að vernda  jarðmyndanir, gróður og dýralíf svæðisins. 

Samkvæmt 81. gr. Laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til næstu ára ásamt aðgerðum til að viðhalda verndargildi svæðisins.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar hefur verið sett upp svæði þar sem eru frekari upplýsingar um áætlunina og vinnu við hana. Gert er ráð fyrir að formlegt kynningarferli hefjist í mars 2022 og að lokaútgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar verði tilbúin í júní sama ár.
Umhverfisstofnun hefur gefið út handbók um stjórnun friðlýstra svæða í umsjón Umhverfisstofnunar þar sem meðal annars eru leiðbeiningar varðandi gerð stjórnunar- og verndaráætlanir. Handbókin er aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar og verður hún höfð til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar fyrir Hrútey.

Umhverfisstofnun upplýsir hér með að vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er hafin. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér vinnu við gerð áætlunarinnar og er ábendingum og athugasemdum sem nýtast munu við gerð hennar fagnað.

Ábendingum og athugasemdum má koma á framfæri við Guðbjörgu Gunnarsdóttur, (gudbjorg@umhverfisstofnun.is) og Kristínu Ósk Jónasdóttur, (kristin.jonasdottir@umhverfisstofnun.is).