Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Landeldi ehf. Þorlákshöfn. Um er að ræða landeldi með allt að 3.450 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma.

Framkvæmdin fór í mat á umhverfisáhrifum og birti Skipulagsstofnun álit sitt vegna þessa þann 13. ágúst 2020. Niðurstaða umhverfismatsins var að áhrifin væru ekki verulega neikvæð en að helstu neikvæðu áhrifin væru vegna ásýndarbreytinga vegna mannvirkja og affallsvatns til sjávar. Með vönduðu fyrirkomulagi mannvirkja er hægt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda á ásýnd. Gera má ráð fyrir að hreinsun affallsvatns og mikil þynning á styrk úrgangsefna vegna öflugs viðtaka komi í veg fyrir neikvæð áhrif efnanna á lífríki. Einnig kunni framkvæmdin að hafa áhrif á grunnvatnsstöðu á svæðinu.

Umhverfisstofnun veitti umsagnir í matsferlinu og telur að með þeim kröfum í starfsleyfi og þeirri vöktun sem þar er krafist að áhrifin verði takmörkuð eins og hægt er. Ef breyting verður á umhverfisaðstæðum sem hægt er að rekja til starfseminnar getur stofnunin farið fram á úrbætur.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is) merkt UST202104-398. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 9. nóvember 2021. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl
Umsókn um starfsleyfi
Tillaga að starfsleyfi Landeldis ehf. Þorlákshöfn
Matsáætlun Landeldis ehf. Þorlákshöfn
Álit Skipulagsstofnunar