Stök frétt

Fimm ný svæði hafa verið friðlýst á árinu og fjögur svæði stækkuð umtalsvert. Þá hafa fimm rammasvæði verið friðlýst gegn orkuvinnslu. Friðlýstu svæðin eru því orðin um 130 talsins og ná yfir um fjórðung landsins.

Á nýju svæðunum liggja víða einstök tækifæri til útivistar, vísindarannsókna, upplifunar á fáförnum svæðum og fjölskrúðugu fuglalífi svo eitthvað sé nefnt. 

Dagur íslenskrar náttúru

Það er vel við hæfi að fagna þessum frábæra árangri á degi íslenskrar náttúru, þann 16. september. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar frétta- og kvikmyndagerðamanns. Ómar hefur verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Á friðlýstum svæðum liggja víða einstök tækifæri. 

Friðlýst svæði á árinu

Stórurð og landslagsverndarsvæðið norðan Dyrfjalla

Svæðið er verndað til náttúruupplifunar fyrir almenning með því að byggja upp áfangastað sem býður upp á gott aðgengi ásamt því að vernda fáfarin svæði þar sem villt dýr verða síður fyrir truflun af manna völdum. Einnig er stefnt að varðveislu vísindalegs gildis svæðisins ásamt því að gera vísindamönnum kleift að rannsaka náttúrufar svæðisins. Meira um svæðið.

Gerpissvæðið

Svæðið er verndað til þess að standa vörð um ásýnd og einkenni Gerpissvæðisins og varðveita upplifun gesta. Verndunin nær til landslagsheildar, lífríkis, gróðurfars og jarðminja svæðisins og í hafi nær friðlýsingin til hafsbotns, lífríkis og vatnsbols. Meira um svæðið.

Friðland við Fitjaá í Skorradal

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar, vernda vistgerðir og búsvæði ásamt því að styrkja verndun lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu. Meira um svæðið.

Lundey

Í Lundey er mikilvægt varpsvæði sjófugla sem skráðir eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands, m.a. lunda, ritu, teistu og æðarfugls. Friðlýsingin miðar einnig að því að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi og lífríki á hafsbotni og hafsbotninn sjálfan. Meira um svæðið.

Látrabjarg

Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg í Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Náttúrufegurð svæðisins er mikil og gróðurfar einkennist af grasmóum og klettagróðri. Við Látrabjarg er einnig að finna menningarminjar auk þess sem jarðsaga Vestfjarða speglast í bjarginu. Meira um svæðið.

Fjögur friðlýst svæði hafa einnig verið stækkuð á árinu.

Snæfellsjökulsþjóðgarður fagnaði 20 ára afmæli á árinu og að því tilefni var efnt til afmælihátíðar, unnið að nýrri reglugerð um Þjóðgarðinn og hann stækkaður. 

Fólkvangurinn í Garðahrauni efra og neðra, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum var einnig stækkaður. Vatnsmýri hefur verið felld inn í fólkvanginn en hún er gróskumikil flæðimýri með fjölskrúðugu fuglalífi. Einnig var helluhraun í Garðahrauni efra við Hraunhóla fellt inn í fólkvanginn.

Friðlandið við Varmárósa var stækkað. Verndargildi þess flest í því að það er mikilvægt fyrir vernd fágætrar tegundar auk þess sem fitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvæg vistkerfi fyrir fugla. Varmárósar eru annar tveggja fundarstaða fitjasefs á Íslandi, en fitjasef er flokkað sem tegund í nokkurri hættu á válista.

Síðast en ekki síst var friðlandið í Flatey á Breiðafirði tvöfaldað að stærð.

Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðið fyrir átaki í friðlýsingum síðan árið 2018. Átakið er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um fjölgun friðlýstra svæða. 

Góð samvinna við hagsmunaaðila

Náttúruverndarsvæði verða ekki vernduð með góðum árangri nema í samvinnu við þá sem eiga hagsmuna að gæta. Eitt af markmiðum Umhverfisstofnunar er einmitt að starfsmenn hennar leiti samstarfs við almenning og hagsmunaaðila.

Í vor kom út stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki. Í þeirri vinnu fólst mikil áskorun vegna fjölbreyttra hagsmuna sem fólk hefur að gæta á því svæði. Í Friðlandi að Fjallabaki nýtur fólk náttúrunnar á margvíslegan hátt, með því að ganga, hjóla, keyra og fara um svæðið á hestbaki svo dæmi séu tekin. Með frábærri samvinnu við hagsmunaaðila náðist góð samstaða um þá áætlun. 

 

Gönguferðir með landvörðum

Við fögnum degi íslenskrar náttúru 16. september og landverðir á náttúruverndarsvæðum um allt land munu taka vel á móti gestum og jafnvel bjóða í fræðslugöngu. 

Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli verður boðið í göngu um Malarrif þar sem farið verður yfir búsetu á svæðinu.

Í náttúruvættinu Dynjanda í Arnarfirði verður fossinn Dynjandi skoðaður frá öðru sjónarhorni.

Gleðilegan dag íslenskrar náttúru.