Stök frétt

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, Eydís Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri, Sigurður Ólafsson, varaforseti bæjarstjórnar og Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, bæjarfulltrúi, voru viðstödd friðlýsingu Gerpissvæðisins milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Mynd: Davíð Örvar Hansson.

Í dag, þann 11. september, staðfesti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýsingu landslagsverndarsvæðis á Gerpissvæðinu, milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar í Fjarðabyggð.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda landslag svæðisins, lífríki, gróðurfar og jarðminjar. Markmið er jafnframt að standa vörð um ásýnd og einkenni Gerpissvæðisins ásamt því að upplifun gesta verði varðveitt. Verndunin nær þannig til landslagsheildar, lífríkis, gróðurfars og jarðminja svæðisins. Í hafi nær friðlýsingin til hafsbotns, lífríkis og vatnsbols. Að lokum skal nýting svæðisins, stjórnun þess og framtíðarskipulag hafa sjálfbærni að leiðarljósi svo ekki verði gengið á náttúrugæði þess.

Vinna við friðlýsingu svæðisins hófst um mitt ár 2019 og lýkur nú með undirritun ráðherra. Fjölmargir hafa komið að friðlýsingunni með beinum eða óbeinum hætti. Haldnir hafa verið íbúafundir, tekið hefur verið við athugasemdum og ábendingum ásamt því sem samstarfshópur skipaður fulltrúum landeigenda, sveitarfélags, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis annaðist afmörkun svæðisins og gerð friðlýsingarskilmála.

Hið friðlýsta svæði er 121,24 km2.

Eftir friðlýsinguna hefur friðlýstum svæðum á Austurlandi fjölgað um tvö á árinu og flatarmál þeirra  aukist um 176 km2. Í aðdraganda friðlýsinganna var bætt við stöðugildi sérfræðings á Austurlandi sem hefur umsjón með friðlýstum svæðum í landshlutanum og er með starfsstöð á Reyðarfirði. Það er ánægjulegt að sjá að fjölgun friðlýstra svæða fjölgi störfum á landsbyggðinni.

Hér eru nánari upplýsingar um Gerpissvæðið

Mynd: Anna Berg Samúelsdóttir

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda landslag, lífríki, gróðurfar og jarðminjar Gerpissvæðisins. Mynd: Anna Berg Samúelsdóttir.