Stök frétt

Mynd: Magnús Freyr Sigurkarlsson / Umhverfisstofnun

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn Ósland hefur nú verið undirrituð og staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra. Ósland er eyja með landbrú við Höfn í Hornafirði. Þar finnast leirur með miklu fuglalífi og basaltafsteypur af trjám sem þar hafa lent í hrauni. 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ósland er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun fólkvangsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun sem er unnin af Sveitarfélaginu Hornafirði. 

Ósland var friðlýst sem fólkvangur árið 1982 og var friðlýsingin endurskoðuð árið 2011. Stærð fólksvangsins er 16,9 ha. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja svæði til útivistar og útikennslu í náttúrufræðum í sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig er markmiðið að tryggja verndun sérstakra jarðmyndana og fjölbreytts fuglalífs.  

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ósland er fyrir fólkvang, en skv. 83. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd annast sveitarfélög umsjón og rekstur fólkvanga og bera af því allan kostnað að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði. Áætlunin er frábrugðin stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir aðra flokka friðlýstra svæða þannig að aðgerðaáætlun Umhverfisstofnunar er mjög umfangslítil og megin áhersla er lögð á aðgerðaáætlun sveitarfélagsins sem er meðfylgjandi áætluninni.  

Sjá nánar um verndaráætlunina, geinargerð með athugasemdum og aðgerðaáætlun frá sveitarfélagi.

Mynd: Magnús Freyr Sigurkarlsson

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn Ósland við Höfn í Hornafirði hefur verið staðfest. Mynd: Magnús Freyr Sigurkarlsson / Umhverfisstofnun