Stök frétt

Ný skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) undirstrikar nauðsyn þess að draga hratt úr losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná kolefnishlutleysi – jafnvægi milli losunar og bindingar - sem fyrst. Skýrslan sýnir einnig að hraður samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda getur haft veruleg áhrif á losun loftmengunarefna og þannig stórbætt loftgæði og lífsgæði fólks um allan heim. 

Alvarleg áhrif loftslagsbreytinga verða æ sýnilegri með tilheyrandi röskun og kostnað fyrir samfélög heims: Öflugri fellibylir, hamfaraflóð, skógareldar, þurrkar og hitamet, hröðun á tegundadauða og svo mætti lengi telja. Til að koma í veg fyrir enn frekari og tíðari hamfarir þarf heimurinn að draga hratt úr losun.

Þegar jarðefnaeldsneyti – kol, olía og gas - er brennt verða ekki aðeins til gróðurhúsalofttegundir eins og koldíoxíð, heldur líka eitruð loftmengunarefni eins og nituroxíð, brennisteinsdíoxíð og fleiri óæskileg efni. Þessi efni svífa um loftin blá og eru svo smá að þau komast inn í lungu fólks og dýra þar sem þau leiða til öndunarfærasjúkdóma eins og astma, krabbameina og hjartasjúkdóma.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin áætlar að um 7-9 milljónir manna deyi árlega af völdum loftmengunar. Sjúkdómar af völdum loftmengun á þannig sök á um 15% allra dauðsfalla í heiminum í dag. Loftmengun er því ein helsta lýðheilsuógn samtímans og til mikils að vinna að draga verulega úr henni. Með því að ráðast í loftslagsaðgerðir sem draga á sama tíma úr losun loftmengunarefna er hægt að bæta lýðheilsu og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Rannsókn sem birt var í læknatímaritinu Lancet fyrr á árinu undirstrikaði þetta. Í henni var dregin sú ályktun að hægt verði að koma í veg fyrir milljónir dauðsfalla fyrir árið 2040 nái ríki heims að halda sig við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráða.

Hámarki náð í losun Íslands

Og hvað getum við gert? Framreikningar sérfræðinga Umhverfisstofnunar á losun Íslands fram til ársins 2040 benda til þess að toppnum í losun hafi verið náð á árunum fyrir bankahrun. Betur má þó ef duga skal og þurfa Íslendingar, rétt eins og aðrir jarðarbúar, að draga úr losun með auknum orkuskiptum og aðgerðum í loftslagsmálum. Það er mikilvægt að tryggja að þessi jákvæða þróun á Íslandi haldist. Nýja skýrslan frá IPCC tekur af allan vafa um mikilvægi þess að hraða, eins og frekast er kostur, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C.

Á vefsíðunni Grænn.is má finna ýmis góð ráð sem bæði einstaklingar og fyrirtæki geta tileinkað sér í að draga úr áhrifum á umhverfið en auka lífsgæði á sama tíma. Með því að skipta um orkugjafa og hætta að brenna jarðefnaldsneyti má til að mynda bæði draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka loftgæði til mikilla muna. 

Sjá nánar í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna: https://www.ipcc.ch/report/ar6/wg1/