Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Inga Dóra Hrólfsdóttir og Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir hafa verið ráðnar til starfa sem sviðsstjórar hjá Umhverfisstofnun.

Aðalbjörg Birna er ráðin í starf sviðsstjóra sviðs mengunarvarna, vatns, lofts og jarðvegs. Hún er með B.Sc. í líffræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi í umhverfis – og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Einnig stundaði hún nám í umhverfisstjórnun á Ítalíu og umhverfisverkfræði í Danmörku.

Aðalbjörg Birna hefur góða stjórnunarreynslu auk víðtækrar þekkingar á málaflokkum sviðs mengunarvarna. Hún hefur starfað hjá Umhverfisstofnun síðustu tólf ár, þar af síðustu fjögur ár sem verkefnisstjóri fyrir innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins á Íslandi þ.m.t. við áætlanagerð. Áður starfaði hún sem teymisstjóri fyrir mengandi starfsemi og mat á umhverfisáhrifum í fjögur ár, sem deildarstjóri náttúruverndarmála í tvö ár og sem sérfræðingur í náttúruvernd fyrstu tvö árin hjá stofnuninni. Aðalbjörg Birna starfaði auk þess í sjö ár samhliða störfum sínum hjá Umhverfisstofnun sem gestafyrirlesari og þátttakandi í rannsóknarverkefnum á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hjá Háskóla Íslands. Birna hefur störf sem sviðsstjóri þann 1. september, samhliða gildistöku nýs skipurits.

Inga Dóra er ráðin í starf sviðsstjóra náttúruverndar og grænna áfangastaða. Inga Dóra er með B.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið meistaragráðu í byggingarverkfræði frá Chalmers Tækniháskóla í Svíþjóð. Auk þess er hún með D-vottun í verkefnastjórnun IPMA og er að ljúka AMP stjórnunarnámi frá IESE Háskólanum í Barcelona.

Inga Dóra hefur víðtæka reynslu af stjórnun. Hún hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í tæp tuttugu ár og undanfarin tvö ár hefur hún gegnt stöðu verkefnisstjóra stefnumótandi verkefna, þar sem hún sá m.a. um verkefnastýringu SPARCS Evrópuverkefnis og hélt utan um verkefni tengd umhverfismálum. Áður starfaði Inga Dóra sem framkvæmdastjóri hjá Veitum ohf. í fimm ár en fyrirtækið annast rekstur hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fráveitu í almannaþágu. Fram að því var hún í ýmsum öðrum stjórnunarstörfum hjá OR en hún hefur starfað þar sem framkvæmdastjóri veitusviðs, framkvæmdastjóri þróunar, sviðsstjóri framkvæmda, sviðsstjóri tæknimála og deildarstjóri landupplýsingakerfis. Inga Dóra hefur störf þann 1. ágúst.

Mikill fengur er af þessum reyndu stjórnendum til að leiða öflugan hóp starfsfólks Umhverfisstofnunar til áframhaldandi árangurs í náttúru- og umhverfisvernd á grundvelli framsýni og samstarfs.