Stök frétt

Í dag, þann 8. júní 2021, staðfesti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýsingu Lundeyjar í Kollafirði sem friðlands.

Friðlýsingin miðar að því að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með því að vernda mikilvægt fuglasvæði í nágrenni Reykjavíkur auk sérstæðs gróðurlendis. Í Lundey er mikilvægt varpsvæði sjófugla sem skráðir eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands, m.a. lunda, ritu, teistu og æðarfugls. Friðlýsingin miðar einnig að því að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi og lífríki á hafsbotni og hafsbotninn sjálfan.

Lundey er í innanverðum Kollafirði milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi. Eyjan er um 400 metra löng og 150 metra breið þar sem hún er breiðust.

Friðlandið er 1,74 km2 að stærð.

Tillaga að friðlýsingunni var unnin af samstarfshóp sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Ríkiseigna, Reykjavíkurborgar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Tenglar:

Nánari upplýsingar um friðlandið má finna hér.