Stök frétt

Mynd: Luca Baggio - Unsplash

Í dag er alþjóðlegur dagur umhverfisins og er tilgangur dagsins að efla vitund fólks um allan heim um mikilvægi þess að vernda náttúruna.

Umhverfisstofnun hefur fjölbreytt hlutverk í umhverfismálum á Íslandi en einnig gagnvart alþjóðasamfélaginu. Meðal verkefna stofnunarinnar er eftirlit og stjórnsýsla loftslagsmála, stjórn vatnamála auk rekstrar og stjórnsýslu friðlýstra svæða svo fátt eitt sé nefnt.
 
Í rekstri friðlýstra svæða eru stjórnunar- og verndaráætlanir nauðsynleg verkfæri til þess að tryggja góða og skilvirka stjórnun. Á síðustu árum hefur stofnunin unnið fjölda stjórnunar- og verndaráætlana í samstarfi við aðrar stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaðila. Umhverfisstofnun er sífellt að þróa og bæta verklagið við gerð þessara áætlana og leggur áherslu á að áætlanirnar séu lifandi skjöl sem taka mið af þeim breytingum sem eiga sér stað bæði í umhverfinu og samfélaginu. 
 
Í stjórnunar- og verndaráætlunum er horft til framtíðar, mótuð stefna fyrir svæðin og aðgerðir sem brýnt er að fara í til þess að ná fram settum markmiðum og viðhalda verndargildi svæðanna. 


Endurheimt vistkerfa fær aukið vægi hjá Sameinuðu þjóðunum næsta áratuginn og með degi umhverfisins hefst þessi áratugur formlega. Með áherslu á endurheimt vistkerfa vilja Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þess að áhersla verði sett á endurheimt vistkerfa í stefnum og áætlunum sem snúa að umhverfismálum. Umhverfisstofun mun að sjálfsögðu taka þátt í þessari vinnu og meðal annars leggja aukna áherslu á að móta stefnur í tengslum við endurheimt vistkerfa í stjórnunar- og verndaráætlunum fyrir friðlýst svæði. 
 
Sem dæmi um endurheimt vistkerfa og mikilvægi þess má nefna votlendi. Með stefnu um endurheimt votlendis væri hægt að ná fram markmiðum þvert á málaflokka stofnunarinnar. Sem dæmi um ávinning af endurheimt votlendis er:

  • Binding kolefnis en gríðarlegt magn kolefna er bundið í votlendum svæðum en kolefnisbinding er talin mikilvægur þáttur í loftslagsmálum til að draga úr áhrifum manna á veðurfar.
  • Endurheimt búsvæða plöntu- og dýrategunda en votlendi fæðir fjölmargar dýrategundir auk þess að geyma fjölbreytt gróðurfar.
  • Endurheimt vatnsmiðlunar sem miðlar nauðsynlegum næringarefnum til nálægra vistkerfa og eykur náttúrulega getu umhverfisins til að mæta flóða- og þurrkatímabilum. 

Með því að leggja fram stefnu um endurheimt vistkerfa í stjórnunar- og verndaráætlunum mun Umhverfisstofnun taka virkan þátt í þessum nýja áratug endurheimt vistkerfa sem hefst formlega í dag. 
 
Lesa má nánar um alþóðlegan dag umhverfisins hér: 
https://www.worldenvironmentday.global/