Stök frétt

Opin kynning á vatnaáætlun fyrir Ísland 2022-2027 var haldin 4. maí 2021. Fundinn er hægt að nálgast hér í upptöku auk þess sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman svör við þeim spurningum sem komu fram á fundinum.

 

Eftirfarandi spurningar bárust:

 

Eru grunnvatnshlot flokkuð eftir eðli/tegund grunnvatns, t.d. ferskt, ísalt, jarðsjór, jarðhitavatn?

Við skiptingu grunnvatns í grunnvatnshlot var stuðst við ýmis gögn t.d. vatnafarskort UNESCO en það kort byggir m.a. á vinnu Árna Hjartarsonar. Kortið byggir á berggerð á hverju svæði og sýnir þá lekt sem einkennir íslensk berglög. Þannig skiptir lekt jarðlaga miklu um það hvernig grunnvatnshlotin eru afmörkuð í vatnshlot. Ekki var notast við seltu (ísalt/jarðsjór) við skiptingu í grunnvatnshlot. Lög um stjórn vatnamála ná yfir bæði kalt og heitt grunnvatn. Eins og staðan er núna þá hefur eingöngu verið unnið með skiptingu kalds grunnvatns í vatnshlot. Ákveðin vinna þarf að fara fram svo hægt sé að taka fyrir heita grunnvatnið.

 

Skjaldbreið – hvað er verið að vakta þar og hver er ástæða vöktunar? – Get ég fengið að sjá vöktunaráætlunina?

Grunnvatnshlotið Skjaldbreið (104-250-2-G) hefur verið vaktað frá 2007 í tengslum við vöktun Þingvallavatns á vegum samstarfshóps um þá vöktun. Sýni hafa verið tekin úr Vellankötlu. Þar eru vöktuð aðalefni, næringarefni og snefilefni. Vatnshlotið Skjaldbreið er vatnshlot þar sem lítil sem engin mannleg umsvif er að finna og því heppilegt til að vakta sem fulltrúa vatnshlots í mjög góðu ástandi. Gögn um efnafræði vatnshlotsins eru einnig  orðin allmikil, sem auðveldar túlkun vöktunarniðurstaðna. Auk þess er vöktunin þegar í gangi svo hægt er að nýta þær niðurstöður sem þar er aflað. Vellankatla er í svokölluðu leitnineti vöktunar en þar er ætlunin að fylgjast með langtímabreytingum í styrk forgangsefna. Vöktunarstaða Skjaldbreiðar kemur fram í töflu 6 í vöktunaráætluninni. Vöktunaráætlunina má sjá hér.

 

Er hægt að treysta fyrirtækjum fyrir vöktun? Er ekki betra að vöktun sé í höndum óháðra aðila, en fyrirtækin greiði kostnað við vöktunina?

Það er reynsla Umhverfisstofnunar að almennt sé hægt að treysta fyrirtækjum til að láta framkvæma þá vöktun sem farið er fram á. Venjulega er um að ræða þjónustu sem fyrirtækin kaupa af þjónustufyrirtækjum eða stofnunum með sérþekkingu á viðkomandi sviði. Starfsleyfisveitandi hefur svo eftirlit með að vöktunin fari fram og uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til mælinganna. Umhverfisstofnun tekur ekki afstöðu til þess hver framkvæmir sjálfa vöktunina ef tryggt er að viðkomandi aðili hefur þekkingu til að útfæra hana á fullnægjandi hátt og að þær útfærslur samrýmist starfsleyfum og samþykktum áætlunum fyrirtækisins um vöktunina.

 

Hefur verið unnið áhættumat vegna hugsanlegs hraunrennslis yfir vatnsból fyrir höfuðborgarsvæðið? Er hugað að vara vatnsbólum ef stór og mikilvæg vatnsból verða ónothæf vegna mengunar eða hraunrennslis?

Umhverfisstofnun bendir á áhættumat sem unnið var fyrir höfuðborgarsvæðið árin 2011 og 2014 samkvæmt ákvörðun almannaverndar höfuðborgarsvæðisins. Hættumat frá árinu 2014 má finna hér.

 

Athugasemd kom frá sérfræðingi Veðurstofu Íslands um að vatnavefsjáin var nýlega uppfærð og því nauðsynlegt að hreinsa skyndiminni vafrans til að hún virki eins og til er ætlast.