Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Í dag, þann 26. maí 2021 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auglýsingu um friðland við Fitjaá í Skorradal.

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar, vernda vistgerðir og búsvæði ásamt því að styrkja verndun lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að vernda og viðhalda tegundafjölbreytni svæðisins og vistfræðilegum ferlum sem og stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu tegunda og fræðslu um votlendissvæðið.

Friðlandið er 0,88 km2 að stærð. 

Tillaga að friðlýsingu var unnin af samstarfshóp sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, Skorradalshrepps og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. 

Undirritunin fór fram á Fitjum í Skorradal viðstöddum fulltrúum landeigenda,  Skorradalshrepps, Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fleirum.  

Nánari upplýsingar um friðlandið má finna hér.