Stök frétt

Útsýni til Esjunnar og Akrafjalls frá Reykjavík að morgni 30. apríl. Akrafjallið sést varla. Mynd: Þorsteinn Jóhannsson

Síðustu daga hefur gráblá móða legið yfir víða sunnan- og vestanlands. Þetta er gosmóða frá eldgosinu á Reykjanesi. Helsta mengunarefnið sem kemur upp í gosinu er brennisteinsdíoxíð (SO2). Það er gastegund og hún ein og sér veldur ekki svona mikilli móðu. En í hægviðrinu síðustu daga hefur hluti gosmakkarins verið að berast fram og til baka fyrir sunnan land og hefur öðru hvoru borist aftur yfir landið. Þegar berst yfir landið gosmökkur sem er ekki að berast beint frá eldstöðinni heldur hefur verið á ferðinni einhverja daga, hafa orðið efnahvörf í gosmekkinum þannig að hluti SO2 hvarfast yfir í SO4 sem eru brennisteinsagnir. Hluti af því brennisteinsgasi sem kom upp með eldgosinu er því ekki lengur á gasformi heldur agnaformi. Brennisteinsgas í lágum styrk dregur óverulega úr skyggni en það gera hins vegar þessar örsmáu brennisteinsagnir. Þær draga verulega úr skyggni og það er skýringin á móðunni sem hefur verið yfir öðru hvoru síðustu daga.

Tengsl brennisteinsgassins (SO2) og og brennisteinsaganna (SO4) mátti sjá greinilega á nokkrum loftgæðamælistöðvum í gær, m.a. á mælistöðinni í Dalsmára í Kópavogi. Þar sem SO4 er á agnaformi, ekki gasformi mælist það á svifryksmælum. Þar mátti sjá að sveiflur í SO2 og örfínu svifryki (PM1) voru í takt. Það skýrist af því að yfir stöðina var að berast gosmökkur þar sem hluti brennisteinsgasinu hafði hvarfast yfir í brennisteinsagnir.


Hér má sjá módelútreikninga frá Veðurstofu Íslands á því hvar má búast við lágum gildum SO2 kl 9 í morgun. Óvenjuleg útbreiðsla gosmakkarins skýrist af því að hann var ekki að berast yfir landið beint frá eldstöðinni heldur barst fyrst til suðurs í hægviðri og er að koma til baka. Þetta er gosmökkur sem eru um sólarhrings gamall.

Móðuharðindin 1783 drógu nafn sitt af svona gosmóðu. Skaftáreldar voru hins vegar margfallt stærra gos. Kvikumagn í Geldingadölum á hverri sekúndu er nálgægt því að vera 1/500 af því sem var í Skaftáreldum.