Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nú, í samvinnu við sveitarfélagið Þingeyjarsveit og landeigendur, hafið vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Goðafoss sem var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. júní 2020. Áætlunin er stefnumótandi skjal þar sem sett verða fram markmið og aðgerðir til að viðhalda verndargildi svæðisins. 

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar  hefur verið sett upp svæði þar sem finna má frekari upplýsingar um framvindu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunarinnar. 

Gert er ráð fyrir að formlegt kynningarferli hefjist í ágúst 2021 og að lokaútgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar verði tilbúin í lok árs 2021. 

Umhverfisstofnun hefur gefið út handbók um stjórnun friðlýstra svæða í umsjón Umhverfisstofnunar þar sem meðal annars er að finna leiðbeiningar varðandi gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna handbókina og verða þær leiðbeiningar hafðar til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar fyrir Goðafoss. 

Umhverfisstofnun upplýsir hér með að vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er hafin. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér vinnu við gerð áætlunarinnar og er ábendingum og athugasemdum sem nýtast munu við gerð hennar fagnað.

Ábendingum og athugasemdum má koma á framfæri til Þórdísar Bjartar Sigþórsdóttur, thordiss@umhverfisstofnun.is eða Örnu Hjörleifsdóttur arna.hjorleifsdottir@umhverfisstofnun.is