Stök frétt

Nú síðasta dag vetrar var Hornstrandastofa, gestastofa friðlandsins Hornstranda, formlega opnuð. Gestastofan er staðsett í Björnsbúð að Silfurgötu 1 á Ísafirði.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson opnaði stofuna en að auki fór Jakob Falur Garðarsson yfir sögu Björnsbúðar og tengsl hennar við Hornstrandir ásamt því sem Kristín Ósk Jónasdóttir teymisstjóri og sérfræðingur fyrir friðlandið fór yfir tilurð og markmið stofunnar. 

Sökum samkomutakmarkana var fjöldi gesta mjög takmarkaður og fór það svo að Guðmundur Ingi umhverfis- og auðlindaráðherra, Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri Umhverfisstofnunar og Marcos Zotes hönnuður stofunnar, komu ekki vestur en tóku þess í stað þátt í opnuninni í gegnum fjarfund. Nokkrir fulltrúar Hornstrendinga voru þó mættir í gestastofuna ásamt fulltrúum ferðaþjónustu og safna. En þessir sömu aðilar höfðu lagt hönd á plóg við undirbúning gestastofunnar, tekið þátt í hugarflugsfundum og lagt til efni þar sem eftir því var óskað. Færum við þeim bestu þakkir fyrir. 

Umhverfisstofnun býður öllum velkomið að kíkja við á Hornstrandastofu, hvort heldur ef verið er að undirbúa á ferð á Hornstrandir eða til að njóta þess sem sýningin hefur upp á að bjóða. 

Frá og með mánudaginum 26. apríl er gestastofan opin frá klukkan 13:00 til 15:00 alla virka daga. En með hækkandi sól þá lengist opnunartíminn og er hann áætlaður frá kl. 08:00 til 16:00  frá 1. júní. 

 

Mynd: Jónína Jakobsdóttir frá Kvíum í eldhúsinu í gestastofunni með útsýnið eins og út um glugga í Kvíum