Stök frétt

Tillaga að fyrstu vatnaáætlun Íslands er nú til kynningar og við viljum bjóða þér á kynningarfund 4. maí n.k. kl. 13.00. Fundurinn verður haldinn á Teams. Takið endilega tímann frá!

Við segjum oft að á Íslandi sé eitt hreinasta vatn í heimi en er það í raun svo? Hluti af vinnunni við vatnaáætlun er einmitt að geta staðfest gæði vatns, draga úr álagi þar sem þess er þörf og vakta vatn til framtíðar. 
Vatnaáætlun felur í sér stefnumörkun um vatnsvernd. Hluti af henni er aðgerðaáætlun þar sem settar eru fram aðgerðir til að tryggja gott ástand vatns og vöktunaráætlun þar sem markmiðið er m.a. að samræma vöktun vatns um allt land. Lög um stjórn vatnamála innleiða nýja nálgun í vatnsvernd hér á landi. Lögunum er ætlað að vernda vatn og vistkerfi þess, stuðla að sjálfbærri nýtingu þess og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Vatnaáætlun ásamt aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun munu gilda til sex ára í senn.
Mikið samráð og samtal  hefur farið fram við gerð vatnaáætlunar og er þessi kynningarfundur hluti af því mikilvæga ferli. Á kynningarfundinum fer verkefnishópur Umhverfisstofnunar yfir tillögu að fyrstu vatnaáætlun Íslands ásamt fylgiáætlunum hennar; aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. Farið verður yfir áhrif og þýðingu áætlunarinnar.

Frekari upplýsingar um vatnaáætlun eru inni á vefsíðunni vatn.is og er frestur til að gera athugasemdir til og með 15. júní 2021.

Kynningin fer fram í gegnum forritið Teams. Ekki er nauðsynlegt að stofna aðgang til að komast inn á fundinn. Ekki þarf að hlaða niður forriti ef fylgst er með í gegnum vafra, en ef ætlunin er að fylgjast með fundinum í gegnum síma þarf að hlaða niður Teams smáforritinu. Ekki er mælt með því að nota Safari vafrann en aðrir vafrar virka vel. 

Fundurinn verður tekinn upp svo hægt er að nálgast hann seinna á vatn.is 

Hlekkur á fundinn: ust.is/fundur/04052021