Stök frétt

Mynd: Annie Niemaszyk, Unsplash


Umhverfisstofnun hefur á síðustu misserum unnið með Landvernd að þróun á námskeiðinu Loftslagvernd í verki.
Um er að ræða 6 – 8 vikna námskeið á vegum Landverndar ætlað einstaklingum sem vilja prófa sig áfram og leggja sitt af mörkum í þágu loftslagsins. Námskeiðið er valdeflandi ferli sem miðar að því að styðja þátttakendur til að finna eigin leiðir til að draga úr kolefnissporinu. Námskeiðið er unnið í litlum hópum og með gagnvirkri þátttöku í Vefskóla Landverndar.

Enginn getur allt – en allir geta eitthvað
Þeir sem skrá sig verða hluti af 5 - 8 manna hópi sem ferðast saman í gegnum námskeiðið. Hópurinn vinnur sig í gegnum nokkra áfanga sem miða að því að hver þátttakandi skoði eigin lífsstíl, hvort sem er á heimilinu, í starfi eða sem almennur borgari. Þátttakendur hafa þannig stuðning og fá hugmyndir frá öðrum í hópnum – og í framhaldinu geta þeir velt fyrir sér til hvaða aðgerða sé hægt að grípa. Í kjölfarið setja þátttakendur sér raunhæf markmið til skemmri og lengri tíma. Fjallað er um samgöngur, matarvenjur, húsnæði, neyslu og hvernig við getum hvatt fleiri til dáða. 

Skemmtilegt að vinna í hóp
Þeim sem skrá sig til þátttöku býðst að taka þátt í hópi þátttakenda eða jafnvel mynda hópa í kringum sig sjálfa, t.d. í fjölskyldunni, innan vinnustaðar eða í skóla. Fjarfundabúnaður er nýttur eftir þörfum og því hægt að taka þátt óháð búsetu. Hóparnir eru leiddir áfram af leiðbeinendum sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun. 
Skráðu þig til þátttöku hér - https://landvernd.is/vefskoli/