Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í tengslum við aðgerðir í fyrstu vatnaáætlun Íslands sem nú er til kynningar lét Umhverfisstofnun vinna greiningu á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda vegna losunar fráveituvatns. Til að meta þá losun var stuðst við þær forsendur sem notaðar eru til útreikninga á losun skólps í loftslagsbókhaldi Íslands og niðurstöður Stöðuskýrslu fráveitumála ársins 2018. Miðað við núverandi losun á fráveituvatni má ætla að losun CO2-ígilda á ári sé um það bil 29 þúsund tonn.

Í dag er fráveituvatn að mestu leyti losað í sjó, þar sem reikna má með losun gróðurhúsalofttegunda, annars vegar vegna losunar metans í loftfirrðum aðstæðum og hins vegar vegna losunar N2O. Magn þessarar losunar er ekki fyllilega þekkt og getur hún verið háð margvíslegum aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.  Óvissan á losun frá strandsvæðum er því metin töluverð. 

Með aukinni hreinsun á skólpi eykst magn seyru sem safnast fyrir á landi með tilheyrandi áskorunum við meðhöndlun og nýtingu í stað urðunar eða förgunar út í sjó. Þegar skólpi er dælt til sjávar fara næringarefni á borð við köfnunarefni (N) og fosfór (P) til spillis, sem annars mætti nýta til dæmis til uppgræðslu lands eða til orkuframleiðslu. Náttúrulegar fosfórbirgðir jarðar eru takmarkaðar og er notkun fosfórs meiri en myndun efnisins í náttúrunni.  

Auk mats á losun við núverandi aðstæður var metið hver losun gróðurhúsalofttegunda verður með aukinni söfnun á seyru eftir því í hvaða farveg hún fer: 

  1. Losun við óbreytt ástand 
  2. Aukin seyrusöfnun til urðunar  
  3. Aukin seyrusöfnun og seyra er nýtt til landgræðslu  
  4. Aukin seyrusöfnun og 50% nýtt til landgræðslu og 50% fer í urðun 

Ef öll þéttbýli sem losa meira en 2.000 persónueiningar myndu hreinsa fráveituvatn þannig að auk grófhreinsunar, þá lækki einnig magn BOD5  og svifagna í skólpi þá áttfaldast magn seyru (úr um 1.300 tonnum í 10.400 tonn af þurrefnum/ár). Við þessa auknu söfnun seyru á landi má gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda dragist saman um 630 tonn jafnvel þó seyran sé urðuð. Ef seyran yrði nýtt til landgræðslu dregst losun enn frekar saman eða um 3.100 tonn CO2  ígilda á ári.  

Gera má ráð fyrir enn frekari samdrátti á losun gróðurhúsalofttegunda ef þéttbýlin færu í tveggja þrepa hreinsun og seyran yrði nýtt til landgræðslu eða um 11.770 tonn CO2  ígilda á ári. Enn meiri ávinningur fælist í því að skipta út tilbúnum áburði fyrir seyru.  

Súluritin hér fyrir neðan sýna hver losun gróðurhúsalofttegunda er miðað við mismunandi farvegi seyru. 

Uppsöfnuð losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim þéttbýlisstöðum sem hér eru til athugunar og samanburður á a) óbreyttu ástandi, b) aukinni söfnun og urðun seyru og c) aukinni söfnun seyru og hún nýtt til landgræðslu.  

Uppsöfnuð losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim þéttbýlisstöðum sem hér eru til athugunar og samanburður á a) óbreyttu ástandi, b) aukinni söfnun og urðun seyru og c) aukinni söfnun seyru og hún nýtt til landgræðslu. Til viðbótar er hér framsett sá munur ef að öll umrædd þéttbýlissvæði myndu fara í tveggja-þrepa hreinsun og b TÞ) urða seyruna eða c TÞ) nýta hana til landgræðslu. 
 
Meginniðurstaða greiningarinnar er sú að árangursríkustu aðgerðirnar gagnvart loftslaginu eru að tryggja ásættanlega fráveituhreinsun og að nýta næringarefni í seyrunni með markvissari hætti t.d. með landgræðslu. 

Á meðan þessi greining sýnir að aukin söfnun seyru muni draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og geti dregið úr þörf á innflutningi á tilbúnum áburði. Þá þarf einnig að hafa gæði seyrunnar í huga við nýtingu hennar, hvort hún innihaldi t.d. örplast, lyfjaleifar og önnur efni sem ekki er æskilegt að verði t.d. nýtt í landbúnað án þess að seyran sé hreinsuð af þeim fyrst. 

Frekari upplýsingar má sjá í Greinargerð um losun gróðurhúsalofttegunda við bætta fráveituhreinsun