Stök frétt

Matorka ehf. hefur sótt um breytingu á starfsleyfi fiskeldis á Hellu, Rangárþingi ytra. Breytingin felst í aukinni losunarheimild köfnunarefnis í frárennsli úr 20 kg/framleitt tonn af fiski í 60 kg/tonn lífmassaaukningar. Breytingin felur einnig í sér að tekin sé burt heimild í starfsleyfi fyrir eldi á borra (beitarfiskur).

Umhverfisstofnun benti umsækjanda á að tilkynna breytinguna til Skipulagsstofnar í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun telur að fyrirhuguð breyting sé ekki líklegt til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og tekur fram að 60 kg losun köfnunarefnis á hvert framleitt tonn (eða tonn aukins lífmassa eldisfisks í stöðinni) er losunarmark í öllum leyfum fyrir eldi laxfiska. 

Umhverfisstofnun hefur nú unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi Matorku ehf. í samræmi við erindið. Við breytingu starfsleyfisins voru laga- og reglugerðartilvísanir uppfærðar eftir því sem við átti sem og stöðluð ákvæði nýrra starfsleyfa Umhverfisstofnunar. Stílfræðilegar uppfærslur voru einnig gerðar og viðauki var einnig uppfærður í samræmi við uppfærslur ákvæða. Allar efnislegar breytingar eru í hornklofa og merktar með fótnótu.

Athugasemdir við breytingatillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is). Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 30. apríl 2021.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfinu við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Tengd skjöl
:
Tillaga að breytingu starfsleyfis
Umsókn um breytingu
Ákvörðun Skipulagsstofnunar
Umsögn Umhverfisstofnunar