Stök frétt

Mynd: Tekin af eftirlitsaðila Umhverfisstofnunar úr eftirliti á Gunnarsholti árið 2009

Umhverfisstofnun boðar opinn kynningarfund vegna fyrirhugaðar leyfisveitingar ORF Líftækni hf. fyrir útiræktun á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti í Rangárþingi ytra. Fundurinn verður haldinn rafrænt í gegnum Teams þann 26.  mars nk. kl 13:00 og stendur til 14:00.

Drög að dagskrá fundar 26. mars 2021 kl: 13:00

  1. 13:00 Sverrir Aðalsteinn Jónsson, sviðsstjóri á sviði starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun
  2. 13:05 Rakel Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
  3. 13:15 Björn Örvar, vísindastjóri ORF Líftækni hf.
  4. 13:30 Pétur Henry Petersen, formaður ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur
  5. 13:40 Árni Bragason, landgræðslustjóri Landgræðslunnar
  6. 13:45 Fyrirlesarar svara spurningum

Fundi slitið kl 14:00

Fundurinn verður aðgengilegur á slóðinni https://ust.is/fundur20210326

Umhverfisstofnun tekur fram að hér er ekki um að ræða leyfisveiting fyrir ræktun á erfðabreyttum matvælum eða fóðri sem fellur undir reglugerð nr. 1237/2014 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs, það er Matvælastofnun sem hefur yfirumsjón með þeim málaflokki.

Stofnunin hefur áður gefið út leyfi fyrir ORF Líftækni hf. til útiræktunar á erfðabreyttu byggi, síðast árið 2009 sem rann út árið 2013. Engin merki eru um dreifingu erfðabreyttra fræja eða víxlfrjóvgun þeirra við aðrar plöntur utan ræktunarreitsins frá síðustu sleppingum. Líkt og áður er útiræktunin í samstarfi við Landgræðsluna og fer ræktunin fram á landi Landgræðslunnar í Gunnarsholti á Rangárvöllum, Rangárþingi ytra.

Umhverfisstofnun hefur haft til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Birt var frétt um móttöku umsóknar opinberlega á vefsíðu stofunarinnar þann 1. febrúar 2021 með útdrátt úr umsókninni. Var þá veittur 30 daga frestur til athugasemda. Umhverfisstofnun barst sex umsagnir um umsóknina og verður gerð skrifleg grein fyrir viðbrögðum stofnunarinnar við þeim í greinargerð eftir að ákvörðun um leyfisútgáfu er tekin.

Málsmeðferð og leyfisveiting sleppingar erfðabreyttra plantna fylgir ákvæðum laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur og reglugerð nr. 728/2011 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Markmið þeirrar reglugerðar er að vernda náttúru landsins, líffræðilega fjölbreytni, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Sú útiræktun sem hér er kynnt, og fyrirhuguð leyfisveiting fjallar um, fellur undir III. kafla reglugerðarinnar um sleppingar erfðabreyttra lífvera út í umhverfið í öðrum tilgangi en til markaðssetningar, n.t.t. í rannsókna- eða þróunarskyni.

Lögbundnir umsagnaraðilar umsóknar um leyfi til sleppingar erfðabreyttra lífvera eru Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur. Umhverfisstofnun óskaði eftir umsögnum þeirra um umsóknina og fylgigögnum þann 1. febrúar sl. og barst umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands þann 15. febrúar sl. og umsögn ráðgjafanefndar þann 26. febrúar sl. Sjá má þær umsagnir hér að neðan undir fylgigögn. Hvorugur umsagnaraðili gerði efnislegar athugasemdir við umsóknina og leyfisveitingu útiræktunar erfðabreytts byggs í Gunnarsholti.

Frestur til að skila inn athugasemdum við fyrirliggjandi leyfistillögu Umhverfisstofnunar er til 14. apríl nk. og skulu þær berast skriflega til Umhverfisstofnunar á netfangið ust@ust.is eða á Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Vakin er athygli á að trúnaðar skal gætt varðandi upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni umsækjanda skv. 10. gr. laga nr. 18/1996 og 30. gr. reglugerðar nr. 728/2011.

Fylgiskjöl: