Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir olíubirgðastöð EBK ehf., Fálkavelli 8, Keflavíkurflugvelli. Með útgáfu starfsleyfisins fellur úr gildi starfsleyfi sem gefið var út fyrir olíubirgðastöðina af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja þann 7. mars 2007.

Starfsleyfið gerir ráð fyrir að heimilt sé geyma allt að 7.116 m3 af olíu í stöðinni. Stærsti geymirinn er 3.800 m3.
Tillaga að starfsleyfi ásamt umsókn og grunnástandsskýrslu frá rekstraraðila var aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 21. desember 2020 til 21. janúar 2021 og gafst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins var tekin.

Ein athugasemd barst á auglýsingatíma en rekstraraðili ítrekaði fyrri athugasemdir um orðalag varðandi hvers konar olíu mætti geyma í stöðinni og setti fram andmæli gegn þeirri skilgreiningu sem fram kom í auglýsingu en hún vísaði í að gufuþrýstingur olíunnar yrði undir tilteknum mörkum. Fallist var á að breyta skilgreiningunni og breyttust því ákvæði starfsleyfisins um umfang lítillega í starfsleyfinu og er nú tilgreint nákvæmlega hvaða tegund af olíu má geyma í stöðinni. Einnig var bætt við tilvísun í nýútkomna reglugerð um mengaðan jarðveg og lagfæringar gerðar á orðalagi á stöku stað.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar stofnunarinnar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Auglýsing þessi er birt á fréttavefsvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Starfsleyfi þetta, sem gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, öðlast þegar gildi og gildir til 18. febrúar 2037.

Tengd skjöl:
Starfsleyfi
Fylgibréf vegna útgáfu starfsleyfis
Niðurstaða skipulagsnefndar