Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Laxar Fiskeldi ehf., Eldisstöðin Bakki 1

Umhverfisstofnun tók þann 12. febrúar 2021 ákvörðun um útgáfu starfsleyfa fyrir félagið Laxar Fiskeldi ehf. að Bakka 1 og Fiskalóni í Ölfusi fyrir landeldi með 100 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma og 100 tonna ársframleiðslu í hvorri stöð fyrir sig. Báðar stöðvar eru seiðaeldisstöðvar þar sem hrognum er klakið út og seiðin alin þar til þau eru flutt í strandeldisstöð við Þorlákshöfn og þar næst í áframeldi í sjókvíum fyrirtækisinis á Austfjörðum.

Rekstraraðili, Laxar Fiskeldi ehf., var áður með leyfi fyrir 20 tonna framleiðslu í hvorri stöð og er því um að ræða framleiðsluaukningu á báðum stöðvum.

Umhverfisstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif vegna eldisins felist aðallega í næringarefnum sem skila sér í viðtakann sem er Þorleifslækur. Að mati stofnunarinnar er dregið úr neikvæðum áhrifum með mótvægisaðgerðum rekstaraðila s.s. hreinsun frárennslis. 

Umhverfisstofnun auglýsti tillögur að starfsleyfum, sbr. 8. mgr. 6. gr. reglugerðar 550/2018, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, til eldis með allt að 100 tonna lífmassa á hverjum tíma á tímabilinu og að hámarki 100 tonna framleiðslu á ári þann 26. október til 24. nóvember 2020 fyrir eldisstöðina að Bakka og 13. nóvember til 12. desember 2020 fyrir eldisstöðina að Fiskalóni. Auglýsingarnar voru birtar á vefsíðu Umhverfisstofnunar ásamt gögnum sem lágu til grundvallar tillagnanna. Engar athugasemdir bárust við tillögurnar á auglýsingatíma.

Unnið var með Matvælastofnun að samræmingu við leyfisútgáfu rekstrarleyfa, en leyfin eru afhent rekstraraðila samtímis skv. 3. mgr. 4. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og hefur sú afhending nú farið fram.

Umhverfisstofnun telur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið lýst með fullnægjandi hætti og sé lögmætur grundvöllur fyrir útgáfu leyfanna.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfanna er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl: