Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Tim Foster, Unsplash

Skýrsla um rannsókn á styrk flúors í beinum hrossa á Íslandi liggur nú fyrir. Rannsóknin var unnin samkvæmt samningi milli Landbúnaðarháskóla Íslands og Umhverfisstofnunar.

Markmið rannsóknarinnar var að afla viðmiðunargagna um flúorstyrk í beinum hrossa í mismunandi aldurshópum og mismunandi landsvæðum til að geta metið betur hvað er náttúrulegur styrkur flúors í hrossum og hvað er tilkomið frá þekktum uppsprettum flúors s.s. eldvirkum svæðum eða frá áliðnaði.
Verkefnastjóri verkefnisins var Charlotta Oddsdóttir dýralæknir á Keldum og gestalektor í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands  en Brynja Valgeirsdóttir meistaranemi í búvísindum annaðist sýnatöku og gagnaúrvinnslu. Sýnum var safnað á árunum 2017-2019 og voru efnagreind af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Flúor er gastegund sem losnar út í andrúmsloftið m.a. við eldgos og framleiðslu á áli. Losunarmörk fyrir flúor í starfsleyfum álvera miða við að losun flúorsins sé innan þeirra marka að ekki hljótist skaðleg áhrif á heilsufar manna og dýra, skemmdir á gróðri eða annað álag á umhverfið. Í umhverfisvöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga er kveðið á um vöktun flúors í kjálkabeinum sauðfjár sem og sjónskoðun á hrossum og sauðfé, styrk flúors í andrúmslofti, grasi, heyi og vatni. 

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að meðalstyrkur flúors í hrossum hér á landi sé lágur. Hærri styrkur flúors greindist í kjálkabeinum hrossa sem voru nærri iðnaðarsvæðinu á Grundartanga en á öðrum landsvæðum. Meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum hrossanna yfir landið mældist 244 ppm og samkvæmt skýrsluhöfundum mældust öll sýni undir viðmiðunargildum hvað varðar hættu á skemmdum í tönnum eða breytingum á beinum.

Niðurstöður reglubundinnar umhverfisvöktunar á lifandi hrossum og sauðfé undanfarin ár, gefa til kynna að ekki séu greinanleg mein á tönnum eða liðum lifandi sauðfjár og hrossa í nágrenni iðjuveranna á Grundartanga af völdum áhrifa flúors, sjá nánar í skýrslur um niðurstöður umhverfisvöktunar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Þessi rannsókn er mikilvægt innlegg til að varpa skýrara ljósi á dreifingu á styrk flúors í beinum hrossa eftir landshlutum og nálægð þeirra við þekktar uppsprettur flúors í andrúmslofti. 

Umhverfisstofnun mun nýta þessa rannsókn til að meta hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi umhverfisvöktunar í kringum iðjuverin, leggja til áframhaldandi rannsóknir eða bregðast við með öðrum hætti. 

Skýrsla í ritröð LBHÍ
Tengill á skýrslur umhverfisvöktunar Norðuráls, Grundartanga