Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mývatn er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð en þar er einnig óvenju fjölskrúðugt fuglalíf. Talið er að við Mývatn megi finna fleiri andartegundir en nokkurstaðar annarstaðar í heiminum. Þar eru einnig margar gæsir og aðrir vatnafuglar, auk þess sem heiðarlendur og hraunbreiður umhverfis vatnið eru kjörlendi fyrir fálka og rjúpur.

Margir skotveiðimenn sækja svæðið heim ár hvert til að veiða rjúpur og gæsir. Það er heimilt þrátt fyrir sérstök lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Öðru máli gegnir um veiðar á öndum. Samkvæmt reglugerð með stoð í fyrrnefndum lögum er óheimilt að skjóta endur á verndarsvæðinu og gildi bannið jafnt um allar tegundir anda.

Þeir sem hyggjast leggja stund á skotveiðar á svæðinu eru beðnir um að kynna sér vel mörk verndarsvæðisins.