Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í eftirlitsferð landvarða á Fjallabaki komu í ljós ljót för eftir vélsleða sem hefur verið ekið á mosagrónu svæði við mörk Friðlandsins að Fjallabaki. Ekki er algengt að sjá skemmdir á landi eða gróðri eftir vélsleða, en eins og með önnur vélknúin ökutæki flokkast það sem ólöglegur utanvegaaksur. Eins og myndirnar sýna þá er um að ræða skemmdir á mosagrónu svæði sem getur tekið tugi ára að gróa ef ekki er gripið inn í og lagfært. Umhverfisstofnun bendir á að þegar ekið er á snævi þakinni jörð, þá þarf að vera tryggt að snjóþekjan sé traust. Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, 31. gr. segir: „ Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.“  Ávallt skal hafa í huga 6. gr. náttúruverndarlaga sem fjallar um aðgæsluskyldu, í umgengni um náttúru Íslands, en þar segir: „Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif sem áhrif hafa á náttúruna skal gera allt sem með sanngirni má ætlast til svo komið verði í veg fyrir náttúruspjöll.“