Stök frétt

Umhverfisstofnun og Borea Adventures hafa undirritað samkomulag vegna rekstrar ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures inni í friðlandinu á Hornströndum. Með samkomulaginu er rekstur Borea Adventures formlega viðurkenndur fyrir árið 2020 sem og mikilvægi hans í að vernda friðlandið á Hornströndum. 

Meginmarkmið samkomulagsins er að starfsemi Borea Adventures miði að því að viðhalda verndargildi og markmiðum verndunar svæðisins, meðal annars með því að upplýsa og fræða starfsmenn og viðskiptavini um umhverfisstefnu sína og verndarmarkmið friðlandsins.
Ásamt því munu aðilar samkomulagsins, Umhverfisstofnun og Borea Adventures, leggja sig fram um að gæta hófs við notkun hreinsiefna, flokka úrgang, nota umhverfisvottuð hreinsiefni, pappír og málningu og skapa snyrtilegt, skilvirkt og fræðandi umhverfi og jákvæða ásýnd svæðisins. 

Borea Adventures fylgir stefnunni um sjálfbæra ferðamennsku sem og að hafa sem minnst áhrif á umhverfið. Innan Hornstranda hefur verkefnið verið að leiða fámenna hópa um svæðið með virðingu fyrir náttúrunni að leiðarljósi, ásamt því að reka gistiaðstöðu að Kvíum og tjaldbúðir í Hornvík.

Umhverfisstofnun óskar Borea Adventures velfarnaðar í sinni grænu vegferð og hlakkar til áframhaldandi samstarfs. 

Á myndinni eru Nanný Arna Guðmundsdóttir og Rúnar Karlsson frá Borea Adventures og Kristín Ósk Jónasdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.