Stök frétt

Umhverfisstofnun veitti nýverið aðskilin leyfi til innflutnings á annars vegar fjórum risaköngulóm (tarantúlum) frá Þýskalandi og hins vegar fjórum fésuglum frá Bretlandi. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn fær köngulærnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum til sýnis. Þá fær Sigrún Kærnested Óladóttir leyfi til innflutnings á fjórum fésuglum til að hafa til sýnis og fræðslu í sérútbúnu húsi með áföstu búri.

Um ræðir framandi lífverur í skilningi náttúruverndarlaga og er innflutningur þeirra þar af leiðandi háður leyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt 63. gr. laga um náttúruvernd. Báðar umsóknir fengu umfjöllun hjá sérfræðinganefnd um framandi lífverur sem skipuð er sérfræðingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskólanum, Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og sameiginlegum fulltrúa Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Við mat á umsóknum um leyfi til innflutnings á framandi lífverum ber Umhverfisstofnun að meta hvort innflutningurinn sé til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni og er stofnuninni óheimilt að veita leyfin sé ástæða til að ætla að svo sé. Samkvæmt áhættumati sem fylgdu umsóknunum eru hverfandi líkur á að tegundirnar þrífist við íslenskar aðstæður. Tók sérfræðinganefnd um framandi lífverur undir það mat.

Útilokað að þrífist utan dyra

Auk sýningar og fræðslu, verða köngulærnar mögulega notaðar við meðferð á ofsahræðslu á köngulóm (arachnophobia). Í umfjöllun sérfræðinganefndar kemur fram að útilokað sé að risaköngulær geti lifað af við náttúrulegar aðstæður á Íslandi, heldur geti þær einungis þrifist innan dyra og þá með umönnun, því þær þurfa hátt hitastig og raka auk vatns og fæðu. Tegundin myndi því ekki lifa af við íslenskar aðstæður ef svo færi að hún slyppi úr búri eða garðinum.

Fésuglur

Stofnunin veitti sem fyrr segir einnig Sigrúnu Kærnested Óladóttur leyfi til innflutnings á fjórum fésuglum (Ptilopsis granti) til að hafa til sýnis og fræðslu í sérútbúnu húsi með áföstu búri. Í umfjöllun sérfræðinganefndarinnar kemur fram að ólíklegt sé að fésuglur geti þrifist villtar hér á landi vegna óhagstæðs verðurfars og fábreytts fæðuframboðs. Sérfræðinganefnd um framandi lífverur er sammála því mati að áhættan af innflutningi fésuglna fyrir innlendar uglutegundir sé hverfandi. Nefndin taldi rétt að taka fram að umsækjandi sótti um að leyfi til innflutnings á þremur tegundum smáugla árið 2015. Þáverandi nefnd lagðist þá gegn innflutningi skálmuglu, en ekki gegn innflutningi á kattuglu og fésuglu. Nefndin telur ekki að aðstæður hafi breyst mikið síðan þá og sér ekki ástæðu til að hafna umsókninni nú.

Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að ætla að innflutningur tegundanna sé til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni er ekki öruggt að tegundirnar verði fluttar inn þar sem að innflutningur þeirra er jafnframt háður innflutningsleyfi í samræmi við lög um innflutning dýra.

Hægt er að kynna sér innflutningsferli fyrir framandi tegundir á vef Umhverfisstofnunar.

https://ust.is/nattura/framandi-lifverur/