Stök frétt

Í síðustu viku stöðvaði Umhverfisstofnun tímabundið markaðssetningu á fimm rúðuhreinsi- og afísingarvökvum sem grunur leikur á að innihaldi metanól í meira magni en leyfilegt er.

Farið var í eftirlit í kjölfar ábendinga sem stofnuninni bárust en frá og með 9. maí 2019 hefur verið bannað að markaðssetja rúðuhreinsi- og afísingarvökva fyrir almenning ef þeir innihalda 0,6% metanól eða meira, líkt og fram kom í frétt á vefsíðu stofnunarinnar þann 8. maí síðastliðinn. Markmið bannsins, sem sett var fram í reglugerð framkvæmdastjórnar ESB og innleitt í íslenskan rétt í september 2018, er að koma í veg fyrir þá áhættu fyrir heilbrigði manna sem skapast vegna váhrifa frá metanóli í slíkum vökvum. 

Eftirlitið leiddi í ljós að sex fyrirtæki höfðu til sölu mismunandi vörur sem grunur leikur á að falli undir bannið og hefur markaðssetning þeirra verið stöðvuð tímabundið á meðan rannsakað er hvort markaðssetning varanna sé leyfileg en heimilt er að selja þær birgðir af slíkum vörum sem fluttar voru inn á Evrópska efnahagssvæðið áður en bannið tók gildi. Þegar niðurstaðan liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvort markaðssetning varanna verði leyfð eða hún stöðvuð varanlega. Nánari upplýsingar um vörurnar sem um ræðir má nálgast hér. 

Verði neytendur varir við vörur sem innihalda metanól bendir Umhverfisstofnun á að senda má ábendingar  hér á vefsíðu stofnunarinnar, hvort heldur sem er undir nafni eða nafnlaust.