Stök frétt

Samkvæmt nýrri neytendakönnun þekkja 88% Íslendinga norræna umhverfismerkið Svaninn. Þekkingin hefur aukist mjög hratt síðustu ár og er þekking landsmanna á merkinu nú á pari við hin Norðurlöndin.

Þekkingin mælist í nýjustu könnuninni einu prósentustigi hærri en í Danmörku. Árangurinn má rekja til aukinnar umhverfisvitundar í samfélaginu, sterku markaðsstarfi Svansins á Íslandi, fjölgun í hópi Svansvottaðra leyfishafa og að fyrirtæki sem selja vottaðar vörur veki í auknum mæli athygli á þeim.

Aukinn áhugi á Svansvottuðum byggingum undanfarið hefur m.a. leitt til þess að úrval vottaðra byggingarvara hefur samstíga aukist og birgjar séð tækifæri í því að leggja áherslu á vottaðar vörur í sínu vöruúrvali. Einnig hafa á síðustu árum bæst við Svansfjölskylduna stór fyrirtæki sem eru áberandi á markaði svo sem Málning og Krónan. Allt þetta gerir merkið sýnilegra neytendum. 

Í könnuninni er einnig mæld þekking neytenda á öðrum neytendamerkingum og þar kemur fram að Svanurinn er þekktasta merkið hérlendis. Þá leita yfir fjórðungur neytenda oft eða alltaf að Svaninum þegar þeir versla og fjórðungur stundum. 
Mjög ánægjulegt er að neytendur tengja Svaninn í auknum mæli við bætta heilsu og lágmörkun á skaðlegum efnum, sem er eitt af grundvallaráherslum í viðmiðum Svansins fyrir vörur og þjónustu.