Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Vatn er mikilvæg auðlind, auðlind sem við ættum ekki að taka sem sjálfsögðum hlut. Við Íslendingar hugsum almennt um það sem hreina auðlind og erum vön að hafa nóg af því. Með innleiðingu laga um stjórn vatnamála ætlum við að sjá til þess að svo verði áfram til framtíðar. Vatnsauðlindin og verndun hennar kemur okkur öllum við.Undir stjórn vatnamála er meðal annars unnið að því að kortleggja álag á vatn og skilgreina viðmiðunarmörk sem segja til um ástand þess. Auk þess er unnið að vöktunar- og aðgerðaáætlun þar sem vöktun og aðgerðir eru settar fram til að bregðast við álagi sem kann að vera á vatnsauðlindinni okkar. 

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að vinna að innleiðingu vatnsverndar undir stjórn vatnamála í víðtæku samráði við hina ýmsu aðila. Verkefnið er þannig samvinnuverkefni stjórnvalda, stofnana, ráðgjafa, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- og umhverfisnefnda sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings. Einnig eru sérfræðingar samstarfsstofnana (Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veðurstofunnar og Orkustofnunar) á sviði ferskvatns og sjávar að vinna sérhæfð verkefni fyrir Umhverfisstofnun. 

Eftir afar viðamikla vinnu með ráðgjafastofnunum okkar, heilbrigðisnefndum og sveitarfélögum er komið að því að hefja fyrsta almenna samráðsferlið á þeirri vinnu sem farið hefur fram. Þetta bráðabirgðayfirlit er lagt fram bæði til að upplýsa almenning og aðra um stöðu mála en fyrst og fremst til að hefja samráð við þá sem ekki hafa þegar komið að vinnunni.  

Hér með gefst tækifæri til að koma með ábendingar eða athugasemdir um verndun vatns sem gætu nýst við gerð vatnaáætlunar sem mun taka gildi árið 2022 og gildir út árið 2027.  Drög að vatnaáætlun verða auglýst til kynningar fyrri hluta árs 2021.  
Ábendingar og athugasemdir sendist á ust@ust.is „Stjórn vatnamála“ eða til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir er til 1. apríl. 

Bráðabirgðayfirlitið má sjá  hér