Stök frétt

Þann 2. ágúst síðastliðinn greip Umhverfisstofnun til takmarkana á umferð við Hveri, Leirhnjúk og Stóra-Víti við Kröflu til verndar náttúru svæðanna. Ráðist var í aðgerðir við að afmarka gönguleiðir og merkja leiðir með skýrari hætti en verið hafði, enda umsjón með svæðinu afar takmörkuð hin síðari ár. Þann 16. ágúst voru takmarkanir framlengdar til 30. nóvember. Á meðan á takmörkunum stóð var landvarsla á svæðunum.

Í kjölfar nýrra athugana landvarða er það mat sérfræðinga Umhverfisstofnunar að ekki sé þörf á að beita takmörkunum á svæðunum yfir háveturinn. Verði ekki gripið til varanlegra úrbóta fyrir sumarið 2020 er þó líklegt að horfa þurfi til áframhaldandi  takmarkana á svæðinu.

Í mati landvarðar á aðstæðum segir m.a. að lítil umferð sé að Víti og Leirhnúki undanfarið vegna sérstakra aðstæðna. Undirlag sé frosið. Líklegt sé þegar þiðnar á ný í vor að þá skapist aftur þörf á takmörkunum ef ekki hefur verið gripið til varanlegra ráðstafana fyrir þann tíma.

Hvað Hveri austan Námafjalls varðar sé gestafjöldi nú einnig margfalt minni en í sumar. „Undanfarið hefur mest allt svæðið utan hveranna sjálfra verið frosið og því hefur ágangur þeirra sem heimsækja svæðið ekki varanleg áhrif á það. Eftir að gönguleiðir um svæðið voru þrengdar og betur afmarkaðar hafa gestir síður gengið yfir viðkvæm svæði. Þrátt fyrir það eru greinilega einstaka sem fara út fyrir stígana sem sést vel þegar er jörð er hálffrosin eins og er utan við stígana. Meðan frost er í jörð er ekki þörf á frekari takmörkunum við Hveri, en svæðið er í góðu standi eins og er þar sem allir staurar og spottar hafa verið lagaðir nýlega. Líklegt þykir að það þurfi að grípa til aðgera aftur þegar þiðnar á ný nema gripið hafi verið til varanlegra ráðstafana á svæðinu fyrir þann tíma,“ segir m.a. í minnisblaði landvarðar.

Myndin er tekin af hópi landvarða við Hveri í fyrrasumar við upphaf framkvæmda.