Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nú styttist í upphaf rjúpnaveiðitímabilsins. Umhverfisráðherra fjölgaði leyfilegum rjúpnaveiðidögum í samræmi við tillögur NÍ, Fuglaverndar, Skotvís og Umhverfisstofnunar úr 15 frá í fyrra í 22 í ár. Sú breyting var einnig gerð að í stað þess að veiðar hefjist síðustu helgina í október er einungis heimilt að veiða í nóvember. Veiðitímabilið verður því frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember. Á tímabilinu er heimilt að veiða frá og með föstudegi til og með þriðjudegi, það þýðir að óheimilt er að veiða miðvikudaga og fimmtudaga.

Röksemd fyrir fjölgun veiðidaga er helst að veiðimenn hafi fleiri valkosti og freistast því síður á fjöll í tvísýnu veðri. Samkvæmt upplýsingum úr veiðiskýrslum bendir flest til þess að fjöldi leyfðra veiðidaga hafi lítil áhrif á sókn veiðimanna, þannig að veiðmenn fari að meðaltali þrjá til fjóra daga til rjúpnaveiða, óháð fjölda leyfðra daga.

Um leið og Umhverfisstofnun vill beina því til veiðimanna að gæta hófs í rjúpnaveiðum eins og undanfarin ár, þá vill stofnunin einnig minna menn á að athuga hvort þeir hafi ekki örugglega endurnýjað veiðikortin áður en þeir ganga til rjúpna.

Ef þú, kæri veiðimaður, ert í minnsta vafa um hvort veiðikortið þitt sé í gildi, getur þú hæglega komist að því í gagnagátt Umhverfisstofnunar.  Veiðimenn skrá sig inn á sitt svæði með Íslykli eða rafrænu skilríki og geta séð hvort veiðikort sé í gildi eða ekki.  Þar er hægt að skila inn veiðiskýrslu, sækja um veiðikort og greiða fyrir það. Greiði veiðimaður fyrir kortið með greiðslukorti afgreiðist rafrænt veiðikort sjálfvirkt og kemur í tölvupósti um leið og greiðslan hefur farið í gegn.  Glati veiðimaður veiðikortinu sínu getur hann ávallt farið inn á sitt svæði og kallað eftir rafrænu veiðikorti sem berst þér þá um hæl með tölvupósti. Umhverfisstofnun mælir með því að veiðimenn noti vefinn til að athuga með stöðu veiðikorts frekar en að hringja, enda er ekki boðið upp á að endurnýja veiðikortið með símtali.