Stök frétt

Umhverfisstofnun í samstarfi við árvekniátakið Plastlausan september stendur fyrir Plastaþoni í dag og á morgun 28. september. Plastaþonið fer fram í starfsstöð Umhverfisstofnunar á Suðurlandsbraut 24.

Plastaþon er hugmyndasmiðja sem leitar lausna við plastvandanum. Þátttakendur mynda teymi og vinna saman að lausnum við þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir varðandi ofnotkun á plasti. Hvernig drögum við úr plastnotkun? Hvernig aukum við endurvinnslu? Hvernig komum við í veg fyrir plastmengun?

Á meðan Plastaþoninu stendur fá þátttakendur ýmsa fræðslu og tækifæri til að hitta fjölbreyttan hóp af fólki og skapa nýstárlegar lausnir undir handleiðslu sérfræðinga. Eitt teymi stendur uppi sem sigurvegari og fær að launum vegleg verðlaun. Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu og býður Umhverfisstofnun upp á veitingar á meðan Plastaþoninu stendur.

Plastlaus september er haldinn í þriðja skipti í ár. Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og hefur átakið náð enn meiri útbreiðslu í ár, með viðburðum um allt land.

Dómnefndina skipa Sigríður Heimisdóttir, iðnhönnuður, Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs og grænjaxl í umhverfismálum, og Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar.

Plastaþon er hluti af NordMar Plastic sem er formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Dagskrá föstudags

9:00 – 12:30   Fræðsla, hugmyndavinna og teymamyndun

13:00 – 19:00  Teymavinna

 

Dagskrá laugardags

9:00 Þjálfun

10:00 – 12:00 Teymisvinna

12:00  Teymin kynna hugmyndir

13:30  Dómnefnd kynnir sigurliðið

Myndina tók Jóhann Garðar Þorbjörnsson skömmu eftir að fyrstu þátttakendur hófu vinnu.