Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að veiðitímabil rjúpu verði frá 1. nóvember – 30. nóvember. Leyft er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags í hverri viku. Veiðibann er miðvikudaga og fimmtudaga. Áfram er í gildi sölubann á rjúpum og eru veiðimenn hvattir til hófsemi í veiðum.

Með þessu fylgir ráðherra ráðgjöf Umhverfisstofnunar sem unnin var í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands og Skotvís.

Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Sölubann er áfram við lýði sem þýðir að óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Umhverfisstofnun fylgir sölubanninu eftir.

Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar.

Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi líkt og undanfarin ár. Veiðimönnum er enn fremur bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum.

Gengið er út frá að rjúpnaveiði verði með sama hætti árin 2020 og 2021 með fyrirvara þó um hugsanlegar breytingar.

Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um náttúru landsins.