Stök frétt

Landverðir hófu störf nú um kaffileytið við Hveri, gagngert til að vernda viðkvæmu náttúru fyrir ágangi ferðamanna. Umhverfisstofnun tók fyrr í dag ákvörðun um að takmarka aðgengi að þremur svæðum í eigu Reykhlíðunga, Stóra-Víti, Leirhnúki og Hverum og mun sú ákvörðun gilda a.m.k. tvær vikur.

Allur fáanlegur mannafli landvarða, 5-6 manns, mun í dag afmarkaða gönguleiðir með skýrum hætti og afmarka þær frá svæðum þar sem umferð er óheimil. Skerpt verður á löglegum bílastæðum, settar upp viðeigandi merkingar og opin svæði minkuð. Að auki verður gripið til aðgerða á svæði uppi á Námafjalli þar sem sumt ferðafólk hefur farið um utan gönguleiða.

 

Síðar verður farið að Stóra-Víti og girt af það svæði sem opið verður ferðamönnum við gíginn. Hringleið um Stóra-Víti verður lokað. Þá verður farið í afmarkanir við bílastæði og lokað á gróðursvæði sem hafa orðið illa úti í kringum bílastæði vegna aksturs utan vega og göngu utan stíga. Settar verða upp viðeigandi merkingar.

 

Við Leirhnjúk verður stígur stikaður vandlega, villustígum lokað og horft eftir að bæta öryggi gesta þar sem við á, t.d. með því að skipta út brotnum borðum í göngupöllum. Settar verða upp viðeigandi merkingar og rusl á öllum svæðunum þremur fjarlægt.

 

Að loknum aðgerðum munu starfsmenn Umhverfisstofnunar fara daglega í eftirlitsferðir og sjá til þess að takmörkunum sé framfylgt.