Stök frétt

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes.

Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð en í eynni verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi sem er langalgengastur, sílamáfur, æðarfugl og teista, jafnframt er Akurey mikilvæg vetrarstöð fyrir skarfa.

Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að stuðla að vernd líffræðilegar fjölbreytni með því að vernda alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði í Reykjavík.

Í reglum um friðlandið er meðal annars kveðið á um að flug ómannaðra loftfara er óheimilt, þá er óheimilt að fara í land í Akurey nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar.

Ákvæðið á þó ekki við um umsjónaraðila. Þá kemur einnig fram að óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan friðlandsins. Varðandi landnotkun þá er heimilt að nýta æðarfugl og sílamáf.

Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til athafna í friðlandinu, s.s. til ljósmynda- og kvikmyndatöku.

 

Umhverfisstofnun annast umsjón og rekstur friðlandsins og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar, sú vinna er hafin í samvinnu við Reykjavíkurborg og er stefnt að því að hún klárist í lok þessa árs.