Stök frétt

Lúsmý hefur verið áberandi það sem af er sumri og virðist sem það sé að ná fótfestu hér á landi. Fólk getur orðið fyrir talsverðum óþægindum vegna bita af völdum lúsmýs þannig að fjöldi manns hefur leitað sér ráða til að koma í veg fyrir bit og hafa fjölmiðlar fjallað talsvert um þetta að undanförnu.

Ein leiða til að fyrirbyggja bit er að nota fæliefni sem borin eru á húð og hafa Landlæknisembættið og Heilsugæslan ráðlagt að áhrifaríkustu fæliefnin gegn flugnabiti séu þau sem innihalda virka efnið DEET (N,N-díetýl-meta-tólúamíð). Annað algengt virkt efni í vörum til að fæla burt skordýr er íkaridín (e. icaridine). Vörur sem innihalda þessi efni hafa í einhverjum tilvikum selst upp í apótekum og hafa því einhverjir brugðið á það ráð að panta fæliefni í erlendum netverslunum.

Af gefnu tilefni vill Umhverfisstofnun koma því á framfæri að vara sem inniheldur eingöngu virka efnið DEET þarf markaðsleyfi í samræmi við efnalög svo heimilt sé að bjóða hana fram á markaði hér á landi. Í dag er engin slík vara með markaðsleyfi á Íslandi. Ekki er þó endilega óheimilt að markaðssetja allar vörur sem innihalda DEET vegna þess að ef vara inniheldur DEET ásamt öðru virku efni, sem er í áhættumati og því heimilt að nota í fæliefnum án markaðsleyfis, þá þarf viðkomandi vara ekki markaðsleyfi til að bjóða megi hana fram á markaði.

Vörur til að fæla burt skordýr sem er óheimilt að bjóða fram á markaði hér á landi án markaðsleyfis eru t.d. þær sem innihalda eingöngu virku efnin etýlbútýlasetýlamínprópíónat og metýlnónýlketón. Aftur á móti eru vörur sem innihalda virku efnin íkaridín, Eucalyptus citriodora olíu og geraníól (sítrónella)  löglegar á markaði í dag án markaðsleyfis, en munu þó með tímanum, eins og öll fæliefni, þurfa markaðsleyfi til að heimilt sé að bjóða þau fram á markaði.

Ef þú ert í vafa hvort að vara sem inniheldur fæliefni og þú hefur í huga að bjóða til sölu sé lögleg á markaði er þér velkomið að hafa samband við Umhverfisstofnun í síma 591-2000 eða í gegnum netfangið ust@ust.is.