Stök frétt

Hvert ár er eftirlit skilgreint með rafhlöðum, rafgeymum, raftækjum og rafeindatækjaúrgangi. Árið 2018 var lögð áhersla á eftirlit með íslenskum framleiðendum rafhlaðna, rafgeyma og raf- og rafeindatækja, ásamt því að athuga hvort móttaka á þessum úrgangi hjá söfnunarstöðvum sveitarfélaga væri í samræmi við reglur. Á Íslandi voru greindir sjö framleiðendur raf- og rafeindatækja en enginn sem framleiðir rafhlöður og rafgeyma. Eftirlit var því framkvæmt hjá þessum sjö aðilum og þurftu þrír þeirra að gera úrbætur á merkingum á framleiddum vörum.

Heilbrigðiseftirlitið sá um framkvæmd eftirlits með söfnunarstöðvum sveitarfélaga og skiluðu níu af tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum niðurstöðum til Umhverfisstofnunar. Samtals var farið í eftirlit á 42 söfnunarstöðvar (gámastöðvar) fyrir úrgang. Almennt séð eru þessi mál í góðum farvegi hjá sveitarfélögum, þó gera þurfi lagfæringar á einstaka stöðum en heilbrigðiseftirlitið mun fylgja því eftir.

Ný reglugerð

Ný reglugerð um raf- og rafeindatækjaúrgang hefur tekið gildi. Helstu breytingar eru:

  • Ný flokkun raf- og rafeindatækja
  • Ný markmið um söfnun, endurnýtingu og endurvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs, en Íslandi ber nú að ná 65% söfnunarhlutfalli árið 2019
  • Verslunum með yfir 400 m2 sölusvæði er nú gert að taka gjaldfrjálst á móti litlum raftækjum sem ekki eru lengur í notkun
  • Gerð var lagfæring á ákvæði í III. viðauka varðandi geymslustaði fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang, þ.e. á ákvæði sem fjallar um varnir gegn vatni og vindum
  • Ákvæði um skráningu á viðurkenndum aðilum var einnig bætt við, en þar er kveðið á um að erlendir aðilar eigi að geta tilnefnt viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi sem starfar þá í þeirra umboði og að þeir aðilar sem selja raf- og rafeindatæki beint til notenda með fjarskiptamiðlum skuli tilnefna viðurkenndan fulltrúa og skal hann ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur viðkomandi framleiðanda

Sérstöku kynningarátaki hrint af stað

Lögð er áhersla á að minna fólk á að henda ekki raftækjum í ruslið heldur flokka þau til endurvinnslu. Söfnunarhlutfallið á raf- og rafeindatækjum var um 45% árið 2017 en markmiðið nú er að ná 65% söfnun.

Eftirlit þetta byggir á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, reglugerð nr. 1020/2011 um rafhlöður og rafgeyma og reglugerð nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang. Markmið eftirlitsins er að hækka söfnunarhlutfall þessa úrgangs, fylgja eftir banni og takmörkunum á tilteknum efnum í rafhlöðum og rafgeymum og sjá til þess að upplýsingagjöf fyrirtækja til viðskiptavina sé fullnægjandi.

Niðurstöður eftirlitsins má sjá hér.